Rússar hafa tekið við meira en tvö þúsund vopnum og öðrum herbúnaði frá Wagner-málaliðahópnum, þar á meðal skriðdrekum.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands greinir frá þessu í dag. Rússneski herinn hafi fengið meira en 2.500 tonn af skotfærum.
Mikið af búnaðinum hefur ekki verið notaður í bardaga áður. Þá hefur hluti vopnanna verið fluttur á staði í Rússlandi til viðhalds.
Ekki er vitað hvar Jevgení Prigósjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, er niðurkominn, en hann stóð að misheppnaðri uppreisn gegn rússneskum stjórnvöldum í júní.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hafði milligöngu um samkomulag til að binda enda á aðgerðirnar. Fólst það meðal annars í því að Prigósjín og menn hans fengju skjól í Hvíta-Rússlandi.
Lúkasjenkó sagði hins vegar í síðustu viku að Prigósjín væri enn í Rússlandi.