Sjónvarpsmaður BBC nafngreindur

AFP/Henry Nicholls

Huw Edwards hefur verið nafngreindur sem sjónvarpsmaður BBC sem á að hafa greitt háar fjár­hæðir fyr­ir kyn­ferðis­leg­ar mynd­ir af ung­menni, allt frá því það var 17 ára.

Vicky Flind, eiginkona Edwards, sendi yfirlýsingu fyrir hönd eiginmanns síns fyrir stuttu. 

Huw Edwards hefur starfað hjá BBC í fjóra áratugi.
Huw Edwards hefur starfað hjá BBC í fjóra áratugi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þar segir að síðustu fimm dagar hafi verið einstaklega erfiðir fyrir fjölskylduna en á sunnudag birtist viðtal við móður ungmennisins í götumiðlinum The Sun. 

Þá steig annað ungmenni fram í gær vegna ósæmilegrar hegðunar Edwards. 

Dvelur á sjúkrahúsi 

Í yfirlýsingunni segir að Edwards glími við alvarleg geðræn vandamál. Síðustu ár hafi hann fengið aðstoð vegna alvarlegs þunglyndis. 

„Atburðir síðustu daga hafa gert illt verra,“ segir í yfirlýsingunni og að Edwards dvelji nú á sjúkrahúsi.

„Er hann verður nógu hraustur ætlar hann að bregðast við ásökunum sem hafa verið birtar.“

Þá segir að Edwards hafi fyrst vitað af ásökunum á fimmtudag en þá hafði The Sun sam­band við fjöl­miðlaskrif­stofu BBC vegna viðtalsins. 

Edwards er 61 árs gamall og hefur starfað á fréttadeild breska ríkisútvarpsins í fjóra áratugi. 

Hann er einn af launahæstu starfsmönnum BBC, en á síðastliðnu ári er áætlað að hann hafi fengið 435 þúsund til 440 þúsund pund í laun, eða um 75 milljónir króna. 

Edwards býr í Lundúnum ásamt eiginkonu sinni og fimm börnum. 

Enginn glæpur átt sér stað

Stuttu áður en yfirlýsingin var birt greindi breska lögreglan frá því að hún myndi ekki rannsaka mál Edwards frekar þar sem enginn glæpur hafi átt sér stað.

BBC mun hins vegar rannsaka málið innanhúss. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert