Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir tyrkneska þingið ekki geta samþykkt inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið (NATO) fyrr en í október.
„Þingið er í frí í tvo mánuði. Auðvitað er ekki hægt að kalla saman þingið úr fríi fyrr,“ sagði Erdogan við fjölmiðla í lok leiðtogafundar NATO í Vilníus í Litháen í dag.
„Það eru fjöldi alþjóðlegra samninga sem þarf að ganga frá, það er fjöldi mála sem þarf að ræða. Við þurfum að forgangsraða þeim eftir mikilvægi þeirra. En markmið okkar er að klára þetta eins fljótt og auðið er,“ sagði Erdogan.
Vonir stóðu til að tyrkneska þingið myndi samþykkja aðild Svía að NATO á næstu vikum.
Erdogan samþykkti á mánudag að veita Svíum aðild að bandalaginu eftir að hafa staðið í vegi fyrir því í rúmlega ár.