„Í mínum huga var þetta rómantískt“

Kevin Spacey mætir í Southwark Crown dómsalinn í London.
Kevin Spacey mætir í Southwark Crown dómsalinn í London. AFP

Banda­ríski leik­ar­inn Kevin Spacey kveðst vera „mik­ill daðrari“ en neit­ar öll­um ásök­un­um um „ágengi­lega“ hegðun. Þetta seg­ir hann í vitn­is­b­urði sín­um í gær. Nú standa yfir rétt­ar­höld yfir leik­ar­an­um í Lund­ún­um vegna ásak­ana um kyn­ferðis­brot.

Voru þetta viðbrögð leik­ar­ans við vitn­is­b­urði þeirra manna sem saka hann um kyn­ferðis­brot. Hef­ur hann sam­tals verið sakaður um tólf brot gegn mönn­un­um og eiga þau að hafa átt sér stað árin 2001-2013 í Bretlandi.

Kevin Spacey, sem er 63 ára, á magnaðan kvik­mynda­fer­il að baki. Hef­ur hann unnið Óskar­sverðlaun fyr­ir kvik­mynd­irn­ar The Usual Su­spects og American Beauty. Einnig er hann þekkt­ur fyr­ir hlut­verk sitt í fram­haldsþátt­un­um Hou­se of Cards.

„Ég er mik­ill daðrari“

Einn mann­anna, sem var bíl­stjóri, held­ur því fram að Spacey hafi brotið á hon­um nokkr­um sinn­um og jafn­vel gripið í hann á meðan hann var að skutla Spacey, með þeim af­leiðing­um að bíl­stjóri „fór næst­um út af veg­in­um“.

Spacey viður­kenndi að hann hafi snert mann­inn en seg­ir að „það hafi ekki gerst á of­beld­is­full­an, ágengi­leg­an, sárs­auka­full­an hátt“.

„Ég var mild­ur og, í mín­um huga, var þetta róm­an­tískt,“ sagði Spacey, sem hélt fram að þeir hafi oft daðrað hvor við ann­an, þó aldrei sofið sam­an. Lýsti hann sjálf­um sér meðal ann­ars sem mikl­um daðrara.

Spacey seg­ir hins veg­ar að meint­ur þolandi hafi „gert það skýrt að hann vildi ekki taka þetta neitt lengra“. Kveðst Spacey vera niður­brot­inn eft­ir ásak­an­ir bíl­stjór­ans á hend­ur sér og kall­ar þær hnífsstungu í bakið.

AFP

Sagðist ekki kann­ast við mann­inn

Ann­ar maður ásakaði Spacey um hafa á sagt óviðeig­andi hluti og í kjöl­far þess gripið í klofið á hon­um á viðburði. Spacey lýsti ásök­un­un­um sem „klikk­un“ og sagðist ekki einu sinni kann­ast við mann­inn þegar hann fékk að sjá mynd af hon­um.

„Ég sagði aldrei neitt af því sem hann ásak­ar mig um að hafa sagt, og ég myndi aldrei og hef aldrei sagt neitt slíkt,“ seg­ir Spacey.

Spacey var kærður í tveim­ur öðrum mál­um á síðustu árum í Banda­ríkj­un­um þar sem hann var í bæði skipt­in ásakaður um kyn­ferðis­brot gagn­vart karl­mönn­um. Í einu mál­inu var hann sýknaður en hinu mál­inu vísað frá. Hann hef­ur ávallt haldið fram sak­leysi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert