Bandaríski leikarinn Kevin Spacey segir málshöfðunina gegn sér vera veika. Spacey bar vitni í Lundúnum í gær og í dag en hann er sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn fjórum karlmönnum.
Saksóknarinn í málinu segir Spacey vera ágangsharðan kynferðislega og að hann eigi auðvelt með að láta öðrum líða illa. Hann hafi meðal annars gripið í klof annarra karlmanna.
Spacey sagði í gær að hann væri mikill daðrari en neitaði að hafa farið yfir mörk annarra.
Í dag var hann spurður út í vitnisburð eins þeirra sem sakað hefur Spacey um að hafa byrlað honum lyf og misnotað hann kynferðislega á meðan hann var sofandi.
Spacey sagðist ekki hafa upplifað það svo, öll þeirra kynferðislegu samskipti hafi verið með samþykki beggja aðila. Þá sagði lögmaður saksóknara Christine Agnew að þetta væri málshöfðunin. Svaraði þá Spacey að þetta væri veik málshöfðun.
Hinn margverðlaunaði leikari sagði í raun að kynferðisleg samskipti hans verið með samþykki beggja aðila í tilvikum tveggja þeirra sem sakað hafa hann um kynferðisbrot. Hann hafi hins vegar sennilega misskilið merki eins þeirra.
Spacey er ákærður í tólf liðum fyrir að hafa brotið gegn fjórum mönnum á árunum 2001 til 2013. Hann hefur lýst sig saklausan af öllum ákærum.