Systir Kims Young-un ómyrk í máli

Hwasong-18-kjarnorkuburðarflauginni skotið á loft á miðvikudaginn. Hún ferðaðist 1.000 kílómetra …
Hwasong-18-kjarnorkuburðarflauginni skotið á loft á miðvikudaginn. Hún ferðaðist 1.000 kílómetra veglengd og skall að lokum í Japanshaf. AFP/KCNA

Kim Yo-young, systir Norður-Kóreuleiðtogans Kims Young-un, varaði í dag, í yfirlýsingu sem birt var á ríkisfréttastofu einræðisríkisins, við stórauknum kjarnorkufælingarmætti af hálfu Norður-Kóreu, létu Bandaríkjamenn ekki af fjandsamlegri stefnu sinni gagnvart höfuðborginni Pyoungyang.

Auk þessa varði systirin síðasta tilraunaskot hersins á miðvikudaginn þar sem kjarnorkuburðarflaug var skotið rúmlega eitt þúsund kílómetra vegalengd og náði sú 6.648 kílómetra hæð áður en hún lenti í Japanshafi. Telja greinendur, miðað við feril flaugarinnar, að hún hefði getað náð til meginlands Bandaríkjanna.

Gagnrýndi yfirlýsingu öryggisráðsins

„Hyggist Bandaríkin ekki láta af fjandsamlegri stefnu sinni í garð Norður-Kóreu [...] munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að auka fælingarmátt kjarnavopna okkar,“ segir Yo-young og bætir því við að tilraunaskotið hafi verið „sjálfsvarnaræfing [...] sem ætlað er að draga úr líkunum á því að Kóreuskaginn dragist inn í kjarnorkustyrjöld“, og gæti enginn álasað stjórninni í Pyongyang fyrir, í ljósi fjandsamlegrar afstöðu Washington.

Loks gagnrýndi hún yfirlýsingu og fordæmingu tíu af fimmtán fulltrúum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á skotinu þar sem fram kom að þau tuttugu tilraunaskot sem Norður-Kóreumenn hefðu framkvæmt í ár væru öll „gróf brot gegn fjölda ályktana ráðsins“.

Muni svara í sömu mynt

Kallaði Yo Young yfirlýsinguna „ósanngjarna og villandi“ og sakaði Bandaríkjamenn að lokum um að senda eftirlitsflugvélar inn í lofthelgi Norður-Kóreu og hótaði því að í framtíðinni yrðu slíkar vélar skotnar niður.

Bandarísk og suðurkóresk stjórnvöld hafa gefið það út, sem svar við tilraunaskotum Norður-Kóreumanna á árinu, að komi til þess að kjarnorkuvopnum verði skotið á Suður-Kóreu eða Bandaríkin verði svarað í sömu mynt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert