Heljarinnar hiti í Evrópu

Túristar skýla sér frá sólinni fyrir utan Colosseum-hringleikahúsið í Róm.
Túristar skýla sér frá sólinni fyrir utan Colosseum-hringleikahúsið í Róm. AFP

Önnur hitabylgja ársins er sögð nálgast Ítalíu, en hún gæti haft lífshættulegar afleiðingar. Hitabylgjan nefnist Cheron, eða Karon, eftir samnefndum ferjumanni úr grískri goðafræði, sem flutti sálir látinna yfir í undirheima Hadesar. 

Hitabylgjan fylgir á hæla hitabylgjunnar Cerbus, eða Kerberos, sem hefur herjað á Spán, Ítalíu og Grikkland í mánuðinum, en hún ber sama nafn og þríhöfða hundurinn sem gætti inngangsins að Hadesarheimi, í grískri goðafræði.

Talið er að hitastig nái allt að 48 gráðum í Sardiníu í næstu viku og 45 gráðum á Spáni í þessari viku og því óhætt að segja að hitinn verði helju líkastur. 

Rauðar viðvaranir

Yfirvöld á Ítalíu hafa gefið út rauðar viðvaranir í 16 borgum vegna hitastigsins, þar á meðal Bologna, Róm og Flórens.

Grikkir hafa einnig gripið til aðgerða vegna hitans í landinu og hefur vinsælasti ferðamannastaður landsins, háborgin Akrópólis, brugðið á það ráð að loka milli hádegis og kvölds til að vernda starfsfólk og ferðamenn fyrir hitanum. 

Maður slekkur þorstann í Þessalóníku í Grikklandi.
Maður slekkur þorstann í Þessalóníku í Grikklandi. AFP

50 gráður í Írak

Evrópulöndin eru þó ekki ein um að kljást við afleiðingar loftslagsbreytinga, en Indland, Írak, Japan, Kína og Bandaríkin eru meðal þeirra landa sem hafa þurft að kljást við lífshættulegan hita, rigningu og flóð. 

Mikil flóð og skriðuföll eru algeng á monsúntímabilinu á Indlandi, en sérfræðingar segja að loftslagsbreytingar auki tíðni þeirra og alvarleika. 90 manns hafa þegar látið lífið á Norður-Indlandi vegna tímabilsins.

Írak hefur aftur á móti þurft að kljást við mikinn þurrk vegna hitans, en hitinn nálgast 50 gráður sumstaðar í landinu. 

El-Niño bætist ofan á þegar hitnandi heim

Sérfræðingar fullyrða að tíðari og heitari hitabylgjur séu afleiðingar hlýnunar jarðar og gróðurhúsamengunar, en meðalhitinn  á heimsvísu í byrjun júní var sá hlýj­asti sem reikni­miðstöð evr­ópskra veður­stofa hef­ur nokk­urn tím­a mælt. 

Einnig má tengja hitabylgjurnar við El Niño-tíma­bil sem á sér stað í ár en það er þegar náttúrulega hitasveifla hækkar yfirborðshita sjávar.

Flestar hitabylgjur sögunnar hafa átt sér stað á slíku tímabili en undanfarin ár hafa miklar hitabylgjur átt sér stað utan tímabilsins. Veðurfræðingar telja það því áhyggjuefni að tímabilið bætist ofan á þegar hitnandi heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert