Verkfallið gæti staðið yfir til áramóta

Meðlimir SAG mótmæla fyrir utan skrifstofur Netflix í New York.
Meðlimir SAG mótmæla fyrir utan skrifstofur Netflix í New York. AFP/Spencer Platt

Jason Sudeikis, Susan Sarandon og þúsundir annarra leikara hafa gengið til liðs við handritshöfunda í stærsta verkfalli Hollywood í meira en sex áratugi. 

Leikarar munu hvorki koma fram í kvikmyndum né kynna þær á meðan á verkfallinu stendur. Meðal þeirra kvikmynda sem gætu orðið fyrir slæmum áhrifum af verkfallinu eru framhaldsmyndir Avatar og Gladiator. Frá þessu greinir BBC.

Verkfall hófst í vikunni

Hollywood leikarar hófu formlega verkfall í vikunni vegna áhyggja af launum, vinnuskilyrðum og notkun gervigreindar í kvikmyndaiðnaðinum. 

Brian Cox, aðalleikari HBO's Succession, sagði í samtali við BBC að verkfallið gæti staðið yfir „til áramóta“.

„Þeir eru að reyna að bola okkur út og berja okkur í jörðina, því það eru miklir peningar í streymisiðnaðinum en það er enginn áhugi á því að deila því með rithöfundum eða flytjendum.“

Slitnaði upp úr viðræðum

Viðræður um nýjan samning við kvikmyndaver og streymisrisa slitnuðu á fimmtudaginn þar sem Screen Actors Guild (SAG) sakaði Alliance of Motion Picture og Television Producers (AMPTP) um að vera „óviljug til að bjóða sanngjarnan samning“.

Um 160.000 flytjendur hættu störfum á miðnætti fimmtudags og bættust í hóp 11.500 meðlima Writers Guild of America (WGA), sem lögðu niður störf þann 2. maí.

Um hádegi á föstudag höfðu verkalýðsfélagar, og stuðningsmenn þeirra, safnast saman fyrir utan skrifstofur helstu myndvera og streymisþjónustu í Los Angeles, New York og öðrum borgum.

Njóta stuðnings kollega sinna

Mótmælin hafa notið stuðnings frá nokkrum af stærstu stjörnunum í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum, þar á meðal stjörnum væntanlegrar Oppenheimer myndar, sem gengu af rauða dreglinum á fimmtudagskvöldið.

Gildin tvö vilja að vinnustofur og streymisþjónustur bjóði upp á betri laun, aukin þóknanir, hærri framlög til lífeyris- og heilsuáætlana sinna og verndarráðstafanir varðandi notkun gervigreindar í greininni.

Líklegt er að framleiðsla á framhaldsmyndum af Avatar, Deadpool og Gladiator verði fyrir áhrifum af verkfallinu og þáttaseríanna Stranger Things, Family Guy og Simpsons. 

Ef við leysum þetta ekki núna, hvenær þá?

Frumsýningar á rauða dreglinum, kynningarviðtöl og viðburðir, þar á meðan Emmy og Comic-Con, hafa þegar verið stöðvuð eða færð yfir á aðrar dagsetningar.

Verkfallsaðgerðirnar eru að hluta knúnar áfram af óþægilegum umskiptum á tímum stafræns streymis, sem og víðtækari tæknibreytingum.

„AI mun hafa áhrif á alla,“ sagði Óskarsverðlaunahafinn Susan Sarandon í samtali við BBC.

„Það hefur örugglega alltaf verið þessi tilfinning ef það er ekki leyst núna, hvernig leysum við það þá í framtíðinni? sagði Sarandon. 

"Ef þú hefur ekki framsýni til að koma einhverju á laggirnar fyrir framtíðina, þá missiru af lestinni. Það er ljóst að ekkert á eftir að breytast að ofan, það er undir okkur komið að breyta þessu,“ sagði hún að lokum. 

Græða minna nú en áður

Bæði rithöfundar og leikarar hafa kvartað yfir því að þeir græði mun minna en þeir græddu áður og að samningar hafi verið skornir niður vegna verðbólgu.

Fyrir leikara hafa laun fyrir einstök hlutverk lækkað, þeir neyðist því til þess að leita eftir fleiri hlutverkum til að græða sömu upphæð og þeir gerðu fyrir nokkrum árum.

Samningar rithöfunda eru orðnir styttri og hættulegri, þar sem greiðsla er oft ekki innifalin fyrir vinnu rithöfunda við endurskoðun eða nýtt efni.

„Við erum að verða fórnarlömb mjög gráðugra aðila,“ sagði Fran Drescher, núverandi forseti SAG, á fimmtudag. „Ég er hneyksluð yfir því hvernig fólkið sem við höfum átt í viðskiptum við kemur fram við okkur.“

Síðasta verkfall stóð í 10 vikur

Misheppnuðu samningaviðræður verkalýðsfélaganna og AMPTP marka fyrsta samhliða verkfallið í greininni síðan 1960. Síðasta verkfall leikara, árið 1980, stóð í 10 vikur.

Þriðja verkalýðsfélagið, Directors Guild of America (DGA), tekur ekki þátt í verkfallinu eftir að hafa náð góðum árangri í samningum sínum í júní, en hópurinn hefur sagt að það styðji eindregið þá sem eru í baráttunni.

Þar sem útlit er fyrir því að verkfallið gæti staðið yfir í marga mánuði, gætu kvikmyndahús staðið frammi fyrir vandamálum, enda hugsanlegt að áhorfendur fái ekkert nýtt efni til þess að horfa á nema raunveruleikasjónvarp og íþróttir í beinni. 

Joe Biden styður verkfallsrétt verkafólks

Hvíta húsið birti yfirlýsingu á föstudaginn þar sem fram kemur að Joe Biden forseti „trúi því að allir starfsmenn, þar á meðal leikarar, eigi skilið sanngörn laun og fríðindi.“ 

„Forsetinn styður verkfallsrétt verkafólks og vonar að aðilar geti komist að samkomulagi til hagsbóta,“ sagði talskona Robyn Patterson.

Leikarar í systurstéttarfélagi SAG í Bretlandi, Equity, verða þó að halda áfram að starfa eins og venjulega, vegna vinnulaga í Bretlandi. Í hópi þeirra eru meðal annars stjörnur úr House of the Dragon hjá HBO. 

Sambandið hefur hins vegar sagt bandarískum fyrirtækjum að það muni fylgjast „mjög náið“ með öllum tilraunum til að flytja bandaríska framleiðslu til Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka