Lykilsönnunargögn fundust í matarleifum

Rannsóknarlögreglumenn lokuðu vettvangi og rannsökuðu heimili þeirra hjóna.
Rannsóknarlögreglumenn lokuðu vettvangi og rannsökuðu heimili þeirra hjóna. MICHAEL M. SANTIAGO

Rex Heuermann neitaði öllum sakargiftum þegar hann kom fram fyrir dómara á föstudag og brast í grát, að því er fram kemur í frétt Independent um málið, en hann er ákærður fyrir morð á þremur konum á þrítugsaldri. 

Eiginkona Rex Heuermann er íslensk kona að nafni Ása Guðbjörg. Saman eiga þau eitt barn en hún á eitt barn fyrir. Á fórnarlömbunum fannst hár úr Ásu, en hún er þó ekki grunuð um aðkomu að morðunum enda hefur hún staðfestar fjarvistarsannanir og var til að mynda stödd á Íslandi þegar eitt morðanna var framið. Talið er að hárin skýrist meðal annars af því að búnaður sem Heuermann notaði hafi verið geymdur á heimili þeirra. 

Í frétt CBS um málið er meðal annars rætt við James Pagano, fyrrum skólafélaga Heuermann, sem lýsti honum sem mjög þöglum, myrkum og hlédrægum manni, en yfirburðargreindum.

Lykilsönnunargagnið voru afgangar

Fyrir dómi var opinberað að lykilsönnunargagnið í málinu hafi fundist í ruslatunnu fyrir utan vinnustað Heuermann í janúar, en það var pitsukassi sem Heuerman hafði hent.

Rannsakendur tóku sýni úr pitsuskorpunni sem var afgangs og fundu þar örfínt hár úr sama efni og hafði verið notað til þess að tjóðra eitt fórnarlambið, Megan Waterman. 

Gerðu þeir þá leit í tölvunni hans og fundu þar leitarsögu hans sem einkenndist af leit eftir barnaklámi, ofbeldisfullu klámi og annars konar ógeðfelldu efni. 

Heuerman er sagður hafa notað sérstakan órekjanlegan farsíma til þess að hafa samband við vændiskonur á árunum 2021 til 2023. Myndir náðust af honum í farsímaverslun í miðbænum að fylla inneign á símann. 

Tíu fórnarlömb fundust

Rannsókn málsins hófst árið 2010 eftir hvarf hinnar 24 ára Shannan Gilbert, en hún var vændiskona og hafði verið að sinna viðskiptavini í grennd við Gilgo Beach. 

Hún hafði samband við neyðarlínuna og sagðist óttast um líf sitt. Símtalið var hljóðritað og hefur verið opinberað. Þar heyrist hún ítrekað segja starfsmanni neyðarlínunnar að það sé einhver að elta sig. Hún heyrist þar einnig eiga í orðaskaki við mann sem hvetur hana til þess að „koma aftur inn í bílinn“. Á einum tímapunkti spyr hún hvort hann ætli sér að drepa sig. 

Leit hófst að Gilbert og fannst hún látin þar sem hún hafði drukknað, eftir að hafa verið kyrkt. Í kjölfarið fundust tíu önnur fórnarlömb á sama svæði, þar af átta konur, einn maður og barn. 

Heuermann er einungis ákærður fyrir morð á þremur þeirra og svo grunaður í einu máli til viðbótar. 

Skuldar háar fjárhæðir í skatt

CBS kannaði einnig fjárhag Heuermann, en samkvæmt skattskýrslu skuldar hann 425 þúsund bandaríkjadali í skatt.

Þá hefur hann einnig höfðað nokkur mál á hendur ökumönnum vegna umferðarslysa sem hann hefur orðið fyrir. Í þremur þeirra mála var ýmist samið eða málið fellt niður. 

Morðin eru kennd við Gilgo ströndina, þar sem líkin fundust …
Morðin eru kennd við Gilgo ströndina, þar sem líkin fundust í grennd við hana. MICHAEL M. SANTIAGO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert