Lögreglan í Kenía hefur fundið 403 lík af liðsmönnum Good News International Church sértrúarsafnaðarins í Shakahola-skógi.
12 lík fundust til viðbótar í dag en Paul Nthenge Mackenzie, leiðtogi Good News International Church, á að hafa tjáð fylgjendum sínum að þeir myndu hitta Jesú ef þeir sveltu sig.
Áfram verður leitað að líkum á morgun en leit í skóginum hófst 13. apríl.
Krufningar hafa leitt í ljós að langflestir létust úr hungri en nokkrir liðsmenn, þar á meðal börn, voru kyrktir eða barðir til dauða.
Mackenzie var handtekinn um miðjan apríl og var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald 3. júlí. Eiginkona hans og 16 aðrir voru einnig handteknir í tengslum við málið.
Mackenzie starfaði sem leigubílstjóri áður en hann stofnaði Good News International Church árið 2003.