„Mikill fjöldi“ katta í Póllandi hefur greinst með fuglaflensuna sem getur aukið líkurnar á að flensan berist í menn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO).
Þar segir að óvenju margar tilkynningar hafi borist til pólskra heilbrigðismálayfirvalda um dauða ketti víðs vegar um landið. 29 kettir reyndust smitaðir af H5N1, eða fuglaflensu.
Alls voru tekin sýni úr 46 köttum og einni gaupu. 14 kettir sem reyndust smitaðir voru svæfðir en 11 höfðu þegar drepist.
Óvíst er hvernig fuglaflensan barst í kettina og er rannsókn á faraldrinum í gangi.
Fuglaflensufaraldurinn sem hófst í lok ársins 2021 er einn sá versti síðan fuglaflensa greindist fyrst árið 1996. Tugir milljóna hænsna um allan heim hafa verið aflífaðar vegna veirunnar.
Í tilkynningunni frá WHO kemur fram að áður hafi fuglaflensa greinst í köttum en ekki eins mörg tilfelli á svo stóru svæði líkt og greinast nú.
Sjaldgæft er að fuglaflensa greinist í mönnum en hún getur valdið alvarlegum sjúkdómi og er dánartíðni há.
Frá árinu 2020 hafa tólf tilfelli fuglaflensu greinst í mönnum á heimsvísu, fjórir þeirra veiktust alvarlega.