Skógareldar brutust út nærri Aþenu, höfuðborg Grikklands, í dag. Hundruð slökkviliðsmanna berjast nú við að halda eldinum frá íbúabyggð og ferðamannastöðum, með stuðningi frá flugvélum og þyrlum úr lofti.
Eldurinn braust úr nærri Kouvaras, 50 kílómetra suðaustur af Aþenu og handtók lögregla þar í dag mann sem grunaður er um að hafa kveikt í en vegna hita og þurrka þarf ekki mikið til að eldar kvikni í skraufþurrum gróðrinum. Greindi lögregla frá því nú fyrir skömmu að erlendur maður hefði verið handtekinn og lægi undir grun.
„Þetta er erfiður eldur, vindar eru mjög sterkir, með vindhviðum sem ná allt að 60 kílómetra hraða á klukkustund,“ sagði Yannis Artopios, talsmaður slökkviliðsins á svæðinu.
Grikkland, ásamt Ítalíu og Spáni, hefur gengið í gegnum mikla hitabylgju síðan í síðustu viku. Hæsti hiti sem mældist var 44 gráður í miðju landsins.
Yfirvöld hafa beðið íbúa á svæðunum þar sem eldarnir geisa um að yfirgefa heimili sín. Áfangastaðir ferðamanna og munkaklaustur á hættusvæðum voru rýmd í samræmi við fyrirmæli grískra yfirvalda. Í Aþenu var ákveðið að loka Akrópólis-hæð yfir heitasta tíma dagsins, eftir að hiti mældist 39 gráður á laugardaginn.
Gríska veðurstofan spáir því að hitastig muni lækka lítillega fram á miðvikudag, eða um 2-4 gráður. Á fimmtudag á hins vegar að hefjast ný hitabylgja þar sem hiti getur farið í 43 gráður.