Sergei Aksjonov, leppstjóri Rússa á Krímskaga, lýsti því yfir nú fyrir stundu að lokað hefði verið fyrir umferð yfir Kertsj-brúna, sem tengir Rússland við skagann, vegna „neyðarástands“.
Samkvæmt „Grey Zone“-rásinni á Telegram-forritinu, sem hefur tengsl við Wagner-málaliðahópinn, reyndu Úkraínumenn að ráðast á brúna kl. 3.04 og 3.20 að staðartíma, eða um eittleytið að íslenskum tíma, með þeim afleiðingum að einn hluti vegarins hrundi og annar losnaði frá stöplum sínum.
Féllu tveir og einn særðist, ef marka má heimildir rásarinnar. Rúm vika er síðan Rússar sögðust hafa skotið niður eldflaug sem miðað var á brúna. Þá náðu Úkraínumenn að ráðast á brúna í október 2022.
Reports out of Crimea of a successful strike on Kerch bridge resulting in a span collapse pic.twitter.com/6Z3vEX4mJv
— Dmitri Alperovitch (@DAlperovitch) July 17, 2023