Bandarískur hermaður í haldi Norður-Kóreumanna

Sameinuðu þjóðirnar annast stjórn varðstöðvarinnar á milli Kóreuríkjanna tveggja.
Sameinuðu þjóðirnar annast stjórn varðstöðvarinnar á milli Kóreuríkjanna tveggja. AFP/Anthony Wallace

Talið er að maðurinn sem er í haldi Norður-Kóreumanna eftir að hafa gengið yfir á þeirra landssvæði sé bandarískur hermaður.

Þetta hefur CNN eftir bandarískum embættismanni.

Maðurinn var handsamaður þegar hann fór yfir línuna sem afmarkar landamæri ríkjanna tveggja að sögn herstjórnar Sameinuðu þjóðanna, sem fer með stjórn landamærastöðvarinnar.

Það þykir ekki góðs viti að bandarískur hermaður sé í haldi Norður-Kóreumanna í ljósi þess að samskipti ríkjanna eru með versta móti og mikil spenna er á Kóreuskaganum.

Lítið er vitað um einstök atriði málsins svo sem hvort hermaðurinn hafi farið viljandi yfir landamæralínuna. Ekki hefur verið sagt frá nafni hermannsins að svo stöddu þar sem beðið er eftir því að aðstandendur hans fái að vita af atburðinum.

Best gættu landamæri í heimi

Landamærasvæðið sem um ræðir er mörgum kunnugt og líklega þekktasti hluti herlausa svæðisins sem skilur að Kóreuríkin tvö og geta ferðamenn heimsótt svæðið.

Hvorki hermenn sunnan- eða norðanmegin mega bera vopn á svæðinu. Hermönnum ríkjanna tveggja er óheimilt að fara yfir línuna sem aðskilur ríkin tvö.

Herlausa svæðið (DMZ) nær yfir 260 kílómetra og er um 4 kílómetra breitt. Er það talið til best gættu landamæra heims, þakið gaddavír og jarðsprengjum og hafa hermenn beggja megin gætt þeirra dag og nótt áratugum saman.

Frávikið á landamærunum er varðstöðin milli ríkjanna tveggja þar sem hermaðurinn fór yfir, en þar skilur aðeins ein lína á milli ríkjanna tveggja. Frægt er að Donald Trump Bandaríkjaforseti steig yfir línuna árið 2019 þegar hann hafði mælt sér mót við Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert