Hitabylgjur geisa áfram þvert á heimsálfur

Hættulegur hiti heldur áfram að hafa áhrif á líf milljóna íbúa þvert á heimsálfur.

Í Grikklandi er barist við gróðurelda sem hafa orðið víðfeðmari og hitamet hafa ítrekað fallið á svæðum í Bandaríkjunum, Evrópu og Kína.

Loftslagsbreytingar líkleg skýring

Fjölmargir sérfræðingar telja að loftslagsbreytingar gegni lykilhlutverki í hækkandi hitastigi sumarsins. Robert Vautard, forstjóri loftslagsstofnunar Frakklands, segir hitabylgjurnar ótengdar en þær skýrist þó allar af loftslagsbreytingum.

Skógareldar í Grikklandi.
Skógareldar í Grikklandi. AFP

Þá hitti John Kerry, loftslagsfulltrúi og fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kínverska embættismenn í Peking í gær til að ræða endurvakningu á stöðnuðum erindrekstri um að draga úr hlýnun jarðar. Á fundinum kallaði hann eftir „heimsleiðtoga“ í loftslagsmálum.

Hitamet slegin hvert af öðru 

Í Peking var slegið 23 ára gamalt met þar sem hiti var yfir 35 gráðum í 27 daga samfellt. Í ríkinu Phoenix í Bandaríkjunum var svipað met slegið, sem hafði staðið óbreytt í 49 ár, og var hitastigið yfir 43,3 gráðum í 19 daga samfellt.

Á Kanaríeyjum hafa slökkviliðsmenn barist við elda sem hafa nú þegar eyðilagt um 3.500 hektara af skóglendi og neytt um 4.000 íbúa til að yfirgefa heimili sín vegna lélegra loftgæða. Rauð viðvörun er nú í gildi á þremur svæðum á Ítalíu og Spáni vegna hitastigs.

Fólk notar mismunandi aðferðir til að skýla sig frá sterkri …
Fólk notar mismunandi aðferðir til að skýla sig frá sterkri sumarsólinni. AFP

Þá geisuðu skógareldar í Aþenu en einnig á eyjunni Rhodos, sem er vinsæll ferðamannastaður. Íbúar eyjunnar hafa þurft að flýja burt úr húsum sínum sem hafa brunnið í eldunum. Búist er við því að ný hitabylgja skelli á í Grikklandi frá og með nk. fimmtudegi.

Spáð er áframhaldandi hitabylgjum yfir alla Evrópu, Asíu og í …
Spáð er áframhaldandi hitabylgjum yfir alla Evrópu, Asíu og í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert