Rauð viðvörun í flestum borgum Ítalíu

Kæling á strönd í Messina á Sikiley. Rauð viðvörun er …
Kæling á strönd í Messina á Sikiley. Rauð viðvörun er í gildi þar. AFP

Rauð viðvörun vegna hitabylgju er í gildi í 23 stórborgum á Ítalíu í dag eða frá Trieste í norðaustri til Messina á Sikiley í suðvestri. Heitast er á suðrænu eyjunum Sardiníu og Sikiley þar sem hiti gæti náð 47 stigum. 

Rauð viðvörun gefur til kynna að hitinn gæti ekki einungis verið hættulegur viðkvæmum hópum heldur einnig ógnað heilsu almennings.

Hitabylgjan hefur í ítölskum miðlum verið nefnd „settimana infernale“ sem á íslensku þýðir „vika í helvíti“.

Fundust látin í íbúð í Pallermo

Byggingar á Sikiley eru margar hverjar illa í stakk búnar til að þola hitann. Fjöldi fólks býr á jarðhæðum, íbúðir eru búnar fáum gluggum og algengt er að stórar fjölskyldur búi saman í litlum rýmum.

Kona og maður á sjötugsaldri fundust látin á heimili sínu í höfuðborginni Palermo í gær og hafa sikileyskir miðlar gefið út að andlátin megi rekja til hitabylgjunnar. 

Fleiri leita á bráðamóttöku

Þá verður heimilislaust fólk illa fyrir barðinu á hitanum auk þess sem álag á heilbrigðisstofnanir eykst í hitanum. Framkvæmdastjóri bráðadeildar á sjúkrahúsinu í Pallermo segir í samtali við BBC að fleiri leiti þangað með hausverk, óreglulegan hjartslátt, vökvaskort og heilaþoku. 

Þá var hitamet slegið í Rómarborg í gær þar sem hiti náði 41,8 stigum. Útlit er fyrir að hitastig lækki víða í Evrópu á morgun, þar á meðal á Norður-Ítalíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert