Söfnun vegna lögreglumanns í rannsókn

Óeirðir ríktu í París í kjölfar atviksins.
Óeirðir ríktu í París í kjölfar atviksins. AFP

Saksóknari í Frakklandi hefur til rannsóknar söfnun sem sett var af stað til stuðnings frönskum lögreglumanni sem skaut 17 ára drenginn Nahel til bana við umferðareftirlit í úthverfi Parísar í byrjun júlí.

Miklar óeirðir fóru af stað í úthverfum borgarinnar í kjölfarið sem hafa gengið niður á síðustu vikum. Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir manndráp af ásetningi. Um 1,6 milljónir evra eða það sem jafngildir um 241 milljón hefur safnast.

Sakar forsprakkann um fjársvik og samsæriskenningasmíð

Lögmaður móður drengsins hefur kært söfnunina til lögreglu en forsprakki söfnunarinnar er Jean Messiha, hagfræðingur og fyrrum ráðgjafi Marine Le Pen, fyrrum leiðtoga Franska þjóðernisflokksins.

Sakar móðirin Messiha um fjársvik, misnotkun á persónuupplýsingum og samsæriskenningasmíð. Málið er í rannsókn hjá saksóknara í París sem einbeitir sér að fjársvikum, að því er embættið tjáði fréttastofu AFP í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert