Jóhanna Kristín Ellerup, systir Ásu Guðbjargar Ellerup, og mágkona Rex Heuermann, sem grunaður er um að hafa orðið fjórum að bana á Long Island í Bandaríkjunum, segist ekkert hafa heyrt frá systur sinni frá því Heuermann var handtekinn á fimmtudag í síðustu viku.
Jóhanna er lyfjafræðingur og býr aðeins nokkra kílómetra frá heimili systur sinnar og mágs á Long Island.
„Við höfum ekkert heyrt frá henni, við erum ekki einu sinni með heimilisfang, við vitum ekkert,“ segir Jóhanna í samtali við DailyMail.
Hún sagði að faðir þeirra sé orðinn gamall og málið sé honum erfitt.
„Það er alveg dagsatt. Ég sver að við vitum minna en þú. Við vitum ekkert, bara alls ekkert,“ segir Jóhanna.
Ása sást síðast þann 14. júlí þegar maður hennar lýsti yfir sakleysi sínu fyrir dómara.
Heuermann er ákærður fyrir morðið á Melissu Barthelemy sem hvarf árið 2009 sem og Megan Waterman og Amber Costello sem hurfu árið 2010. Þá er hann grunaður um morðið á Maureen Brainard-Barnes sem hvarf árið 2007. Allar voru þær á þrítugsaldri og voru að sögn saksóknara vestra vændiskonur.
CNN greindi frá því í gær að lögregla telur að fjölskylda Heuermann hafi ekki vitað neitt um manndrápin.
Rodney Harrison, lögreglustjóri í Suffolk-sýslu, segir að fjölskyldunni hafi verið mjög brugðið þegar hún var upplýst um hvað Heuermann væri grunaður um.
„Þeim fannst þetta ógeðslegt og þau skömmuðust sín. Þannig ef þú spyrð mig, þá tel ég að þau hafi ekki vitað að hann lifði tvöföldu lífi,“ sagði Harrison.
Hann sagði að lögregla hafi fylgst með Heuermann. Upplýsingar úr netvafra í tölvu í eigu hans gefi til kynna að hann hafi fylgst stöðugt með því þegar lík stúlknanna hurfu.