Ása Guðbjörg Ellerup, eiginkona Rex Heuermans sem grunaður er um að hafa orðið fjórum konum að bana á Long Island í Bandaríkjunum, hefur sótt um skilnað frá eiginmanni sínum.
Samkvæmt Fox sótti Ása Guðbjörg um skilnað frá Heuerman í gær en þar er haft eftir lögmanni Ásu þar sem hann segir lífi fjölskyldunnar hafa verið snúið á hvolf.
Þá er greint frá því að lögreglan hafi lokað heimili fjölskyldunnar af í um viku og tekið vegabréf, síma og tölvur.
CNN greinir frá því að Ellerup og Heuerman hafi verið gift í 27 ár en lögreglan telji að fjölskyldan hafi ekkert vitað um gjörðir Heuermans. Lítið sé þó hægt að útiloka að svo stöddu.
Heuerman var handtekinn 14. júlí síðastliðinn og lýsti yfir sakleysi sínu í dómsal degi síðar og var úrskurðaður í gæsluvarðhald án möguleika á að vera látinn laus gegn tryggingu.
Hann er ákærður fyrir morðið á Melissu Barthelemy sem hvarf árið 2009 sem og Megan Waterman og Amber Costello sem hurfu árið 2010. Þá er hann grunaður um morðið á Maureen Brainard-Barnes sem hvarf 2007. Allar voru þær á þrítugsaldri og voru að sögn saksóknara vestra vændiskonur.