Kveikt í sendiráði Svíþjóðar í Bagdad

Mótmælendur klifra yfir girðingu við sænska sendiráðið. Sjá má reyk …
Mótmælendur klifra yfir girðingu við sænska sendiráðið. Sjá má reyk standa úr sendiráðinu. AFP

Mótmælendur í Bagdad, höfuðborg Írak, réðust inn í sænska sendiráðið í borginni í nótt og kveiktu í byggingunni. Mótmælin fóru fram til að mótmæla fyrirhugaðri Kóranbrennu í Svíþjóð. 

Mörg hundruð manns réðust að sendiráðinu og kom eldur upp í byggingunni. Yfirvöld í Svíþjóð hafa fordæmt árásina og staðfest að engan sakaði.

Mótmæla Kóranbrennu í Svíþjóð

Árásin í Bagdad á rætur sínar að rekja til mótmæla sem eru skipulögð seinna í dag fyrir utan íraska sendiráðið í Svíþjóð þar sem fyrirhugað er að kveikja í eintaki af Kóraninum og eintaki af íraska fánanum.

Nokkrum sinnum hefur verið sótt um mótmæli af þessum toga í Svíþjóð en lögreglan hefur alltaf synjað beiðni mótmælenda þar til nú. Hafa yfirvöld í Svíþjóð samþykkt að mótmælin fari fram til að vernda tjáningarfrelsið. 

Árásin á sendiráðið var skipulögð og framin af stuðningsmönnum sjítaklerksins Muqtada Sadr. Óeirðarlögregla í Írak dældi vatni á mótmælendur með vatnsdælum til að lægja öldur mótmælenda. Öryggissveitir voru einnig á svæðinu og notuðu rafbyssur gegn mótmælendum.

„Við söfnuðumst saman til að fordæma Kóranbrennu. Kóraninn er um ást og trú. Við krefjumst þess að yfirvöld í Svíþjóð og Írak bindi enda á svona lagað,“ sagði Hassan Ahmed mótmælandi við sænska sendiráðið í samtali við frönsku fréttaveituna AP.

Mótmælendur söfnuðust saman á þaki byggingar við hliðina á sænska …
Mótmælendur söfnuðust saman á þaki byggingar við hliðina á sænska sendiráðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert