Myndskeið: Æstur múgur inni í sendiráðinu

Mótmælendur í Bagdad, höfuðborg Írak, réðust inn í sænska sendiráðið í borginni í nótt til að mótmæla fyrirhugaðri Kóranbrennu í Svíþjóð í dag.

Mörg hundruð manns söfnuðust saman fyrir framan sendiráðið í nótt til að mótmæla. Margir klifu síðan veggi sem voru í kringum sendiráðið og báru eld að byggingunni. 

Franska fréttaveitan AP birti myndskeið af atburðinum en þar má meðal annars sjá mótmælendur kasta steinum í átt að lögreglu. Myndskeiðið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Fréttastofa BBC birti einnig myndskeið af óeirðunum en það má berja augum í spilaranum hér að neðan. Í myndskeiðinu má sjá fólk innan veggja sendiráðsins og reyk stíga upp frá byggingunni.

Mótmæla mótmælum

Eins og áður hefur verið greint frá á árás­in í Bagdad ræt­ur sín­ar að rekja til mót­mæla sem eru skipu­lögð seinna í dag fyr­ir utan ír­akska sendi­ráðið í Svíþjóð, þar sem fyr­ir­hugað er að kveikja í ein­taki af Kór­an­in­um og ein­taki af ír­akska fán­an­um.

Árás­in á sendi­ráðið var skipu­lögð og fram­in af stuðnings­mönn­um sjítaklerks­ins Muqtada Sadr. Óeirðarlög­regla í Írak dældi vatni á mót­mæl­end­ur með vatns­dæl­um til að lægja öld­ur mót­mæl­enda. Yfirvöld í Svíþjóð lýstu því yfir í dag að engan hafi sakað í óeirðunum.

Mótmælendur klífa veggi í kringum sendiráðið á meðan slökkviliðið reynir …
Mótmælendur klífa veggi í kringum sendiráðið á meðan slökkviliðið reynir að vinna bug á eldsvoðanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert