Bandarískir og suðurkóreskir hermenn hlupu á eftir bandaríska hermanninum Travis King til að stöðva hann í að fara inn á norðurkóreskt yfirráðavæði. Hinn 23 ára King var í hóp ferðamanna með leiðsögumanni þegar hann tók á sprett og hljóp yfir landamærin.
Vitni úr ferðahópi King segja hann hafa tekið á sprett upp úr þurru öllum að óvörum, þar sem hann hafi verið rólegur og þögull fram að því. Bandarískur hermaður á svæðinu hafi öskrað „náið honum“ og hafi þá hermennirnir hlaupið af stað til að reyna að ná honum.
Sara Leslie einn ferðamannanna úr hópnum kveðst aldrei hafa séð neinn hlaupa jafn hratt og King. Hann hafi verið langt á undan hermönnunum þegar hann hljóp yfir landamærin og hafi hermennirnir þá þurft að nema staðar og gefast upp.
Hópurinn var í skoðunarferð með leiðsögumanni við hlutlausa svæðið (DMZ) á milli Norður-Kóreu og Suður-Kóreu. Norður-Kóreumenn eru hins vegar taldir fylgjast grannt með svæðinu.
King er talinn vera í haldi í borginni Pyongyang, en hann var áður handtekinn í Suður-Kóreu fyrir að skemma lögreglubíl. Hafði hann verið látinn laus úr haldi lögreglu, en vísa átti honum úr landi og senda aftur til Bandaríkjanna.
King virðist þó hafa haft önnur áform og flúði áður en hann var sendur heim og hélt í skoðunarferðina örlagaríku. Yfirvöld í Pyongyang hefur hvorki tjáð sig um mál hans né svarað fyrirspurnum Bandaríkjamanna.