McDonald‘s í Bretlandi hefur skipað rannsóknarnefnd til að bregðast við ásökunum um ósæmilega kynferðislega hegðun og rasisma meðal starfsfólks.
Alistair Macrow, forstjóri McDonald‘s í Bretlandi, sagðist í viðtali á BBC hafa skipað sérstaka rannsóknarnefnd til að kanna ásakanirnar.
Teymið muni hafa heimildir til að rannsaka allar ásakanir ofan í kjölinn. Hann sagðist jafnframt taka málið mjög nærri sér og vera í miklu áfalli yfir því.
Meira en eitthundrað fyrrum og núverandi starfsmenn skyndibitakeðjunnar hafa stigið fram með ásakanir um ósæmilega hegðun á vinnustað.
McDonald‘s hefur áður skrifað undir samning við Jafnréttis- og mannréttindaráð Bretlands og hefur sá samningur lagalegt gildi. Hefur ráðið málefni McDonald‘s í Bretlandi til skoðunar, en starfsfólk keðjunnar í Bretlandi telur 177 þúsund manns.