Myrti hann þær heima?

Tæknimaður við rannsóknir á heimili arkitektsins sem grunaður er um …
Tæknimaður við rannsóknir á heimili arkitektsins sem grunaður er um að myrða fjórar vændiskonur. Rannsakendur velta nú upp þeim möguleika hvort Heuermann hafi myrt konurnar, eða einhverjar þeirra, á heimili sínu. AFP/Yuki Iwamura

Rannsakendur hins voveiflega máls „Long Island-raðmorðingjans“ Rex Heuermann skoða nú þann möguleika að Heuermann hafi myrt einhverjar þeirra þriggja vændiskvenna, sem hann hefur verið ákærður fyrir að hafa ráðið af dögum, á heimili sínu í Massapequa Park í Long Island árið 2010.

Ekki er ljóst hver örlög fjórðu konunnar urðu en Heuermann er grunaður um að myrða hana þótt ákæra hafi ekki enn verið gefin út fyrir það víg. Aðra konu, sem lést um svipað leyti, taldi lögregla hafa drukknað en fjölskylda hennar mótmælti þeirri kenningu. Heuermann hefur þó ekki verið tengdur henni með neinum hætti. Árið 2020 gaf streymisveitan Netflix út myndina Lost Girls sem byggði á þessari óleystu ráðgátu við Gilgo Beach.

Heuermann, sem er tæplega sextugur arkitekt, býr með íslenskri eiginkonu og tveimur uppkomnum börnum og stendur rannsókn á heimili hans nú yfir, viku eftir að hann var handtekinn þegar ný gögn tengdu erfðaefni hans við strigapoka sem konurnar myrtu fundust í. Þá hafa rannsakendur fundið rúmlega 200 skotvopn á heimili grunaða.

Lögreglumenn lögreglustjórans í Polk-sýslu á Long Island standa vörð við …
Lögreglumenn lögreglustjórans í Polk-sýslu á Long Island standa vörð við heimili grunaða. AFP/Yuki Iwamura

Tengsl við fleiri mál könnuð

Eftir því sem þeir greina sjónvarpsstöðinni CBS News frá er talið að eiginkona Heuermann og börnin hafi verið að heiman það tímabil sem konurnar voru myrtar á. Einnig segja rannsakendurnir það til skoðunar hvort Heuermann tengist öðrum óleystum morðmálum í Bandaríkjunum, svo sem í Atlantic City og New Jersey. Hafa dómarar enn fremur gefið út leitarheimildir fyrir staði í Las Vegas og Suður-Karólínu sem talið er að Heuermann hafi tengst.

Eiginkonan íslenska, Ása Ellerup, hefur farið fram á skilnað svo sem fram hefur komið en lögregla telur einsýnt að henni og börnunum hafi ekki verið kunnugt um hið tvöfalda líf heimilisföðurins.

Gilgo Beach í Babylon í New York þar sem lík …
Gilgo Beach í Babylon í New York þar sem lík ellefu kvenna hafa fundist síðan snemma árs 2010. AFP/Spencer Platt

Robert Macedonio, lögmaður eiginkonunnar, segir að henni hafi verið gert að yfirgefa heimili þeirra með ekkert annað en fötin sem hún stóð í og að henni verði ekki heimilt að snúa aftur fyrr en að rannsókn á vettvangi lokinni. Var henni gert að skilja vegabréf sitt eftir á heimilinu þótt ekki hafi verið lagt hald á það.

Sjö óskráðir farsímar

Eftir á annan áratug var Heuermann handtekinn eftir að erfðaefni úr honum á pizzaöskju kom heim og saman við erfðaefni sem fannst á hári eins fórnarlambanna, Megan Waterman. Eins hafði Chevrolet Avalanche-pallbifreið verið í eigu grunaða þegar konurnar voru myrtar og sá vitni slíka bifreið aka af vettvangi eins líkfundarstaðanna á sínum tíma.

Enn meira lögreglulið statt á heimili arkitektsins við rannsóknir.
Enn meira lögreglulið statt á heimili arkitektsins við rannsóknir. AFP/Michael M. Santiago

Þá sýndu gögn tengd sjö óskráðum farsímum, sem Heuermann er talinn hafa notað til að hringja í fórnarlömb sín, staðsetningar sem ýta undir grun rannsakenda en hann losaði sig við símana eftir að konurnar voru myrtar.

Vændiskonurnar fjórar voru á sínum tíma spyrtar saman í það sem kallað var „Gilgo Four“ en lík þeirra fundust með sams konar umbúnaði á nokkurra daga tímabili síðla árs 2010.

Heuermann neitaði sök í málinu fyrir dómara á föstudaginn er hann var beðinn að taka sakarafstöðu til þriggja manndrápa sem honum eru borin á brýn.

CBS

NBC

New York Post

CNN

FOX News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert