Trump fyrir rétt í Florida í maí 2024

Donald Trump gengur inn í réttarsal á Manhattan fyrr á …
Donald Trump gengur inn í réttarsal á Manhattan fyrr á árinu. AFP/Ed Jones

Alríkisdómari í Flórída í Bandaríkjunum hefur ákveðið að réttarhöld í máli ríkisins gegn Donald Trump fyrrverandi Bandaríkiaforseta fari fram 24. maí 2024, en forsetinn fyrrverandi er sakaður um að hafa tekið með sér trúnaðarskjöl úr Hvíta húsinu þegar embættistíma hans lauk og geymt með ólögmætum hætti á setri sínu Mar-a-Lago í Flórída. 

Þetta er þvert gegn óskum Trumps sem vildi að málinu yrði frestað fram yfir forsetakosningar í Bandaríkjunum sem fram fara í nóvember sama ár. Réttarhöldin munu því fara fram á meðan kostningabaráttan stendur yfir.

Búist er við að réttarhöldin standi yfir í tvær vikur og muni fara fram í Fort Pierce í Flórída. Í síðasta mánuði var forsetanum fyrrverandi birt ákæra í 37 liðum, en hann neitaði sök við réttarhöld í Miami.

Þetta er ekki eina málið sem beinist að Trump fyrir bandarískum dómstólum, en í  apríl gaf ákærudómstóll á Manhattan út ákæru á hendur honum vegna gruns um að hafa misfarið með fjármál forsetaframboðs síns 2016 með því að múta klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels í skiptum fyrir þögn hennar um samskipti þeirra árið 2006. Þá var hann í maí sl. fundinn sekur um kynferðisbrot gegn dálkahöfundinum E. Jean Carroll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert