Fyrir 50 árum og einum degi, 21. júlí 1973, skutu útsendarar á vegum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad Marokkóbúann Ahmed Bouchiki þrettán skotum á Furubakken í Lillehammer í Noregi, bæ sem löngu síðar komst á heimskortið fyrir Vetrarólympíuleikana sem þar voru haldnir árið 1994. Fáir vissu hins vegar af skotunum þrettán og vígi Bouchiki, Mossad-leyniþjónustan er þekkt fyrir flest annað en að guma af verkum sínum.
Þarna voru hins vegar gerð afdrifarík mistök. „Við vissum að við drápum rangan mann,“ segir Dan Ærbel nú við norska ríkisútvarpið NRK, 85 ára gamall Ísraelsmaður fæddur í Danmörku sem er tilbúinn að létta á hjarta sínu eftir 50 ár.
Ahmed Bouchiki var nefnilega ekki skotmarkið, heldur Ali Hassan Salameh, einn af leiðtogum hryðjuverkasamtakanna Svarts septembers. Salameh var talinn hafa lagt á ráðin um hryðjuverkaárásina og gíslatökuna á Ólympíuleikunum í München árið áður, sumarið 1972, þar sem ellefu Ísraelsmenn létu líf sitt. Við það yrði ekki unað.
Ærbel kom við fimmtánda mann frá Mossad í júlí 1973, fór þar hrein aftökusveit sem Mike nokkur Harari stjórnaði. Fyrirmæli hans frá ísraelska forsætisráðherranum Golda Meir voru einföld: sveit Harari átti að koma öllum Palestínumönnum, sem að ódæðinu á Ólympíuleikunum komu, fyrir kattarnef. Hann gekk einbeittur til verks – fyrir utan að fara mannavillt.
Júlíkvöld eitt árið 1973 var hinn þrítugi Marokkóbúi Ahmed Bouchiki, þjónn á veitingahúsi í Lillehammer, að koma úr kvikmyndahúsi í för með óléttri eiginkonu sinni og þau stödd á strætisvagnabiðstöð þegar hann var skotinn fjölda skota af stuttu færi er urðu honum að aldurtila. Lögregla og fjölmiðlar afgreiddu málið sem viðsjár á fíkniefnamarkaði Lillehammer og sóuðu ekki starfsorku sinni frekar. Fæstir vissu fyrr en löngu síðar að norski smábærinn Lillehammer var blóðugt svið uppgjörs í alþjóðlegu hryðjuverkamáli sumarið 1973.
Dan Ærbel, viðmælandi NRK, er enn á vinnumarkaði, 85 ára gamall. Þó ekki hjá Mossad. Hann er öryggisvörður og gengur um ísraelskan stórmarkað með talstöð í axlarhulstri. Engan daglegra gesta markaðarins grunar að þessi brosmildi eldri maður hafi um árabil starfað í innsta hring leyniþjónustunnar Mossad.
Ærbel gekk erinda Mossad um gervöll arabaríkin og Evrópu. Þekktasta aðgerðin nú um stundir sem hann kom að er sú sem misfórst svo skelfilega þegar þjónninn í Lillehammer var skotinn til bana fyrir hreina handvömm. Skæðasta drápssveit Mossad fór einfaldlega mannavillt.
„Ég sá manninn í Lillehammer vel og ég sagði við Mike [Harari] að þetta væri ekki rétti maðurinn, þetta væri ekki Salameh,“ rifjar Ærbel upp. „En hann sagðist vita betur. Og það var ekki bara ég, Sylvia Rafael sagði líka að þetta væri rangur maður,“ segir Ærbel en þau Rafael voru bæði handtekin eftir víg þjónsins og sátu í fangelsi í Noregi um árabil. Eftir að Rafael hafði afplánað giftist hún norska verjandanum sem annaðist málsvörn hennar og bjó í Noregi lengi vel.
Sylvia Rafael var í hópi reyndustu njósnara Mossad. Hún þurfti ekki einu sinni að líta á myndina af Salameh til að vera handviss um Bouchiki væri ekki hann. Líkamstjáning hans sannfærði njósnarann reynda á augabragði, Bouchiki var heimamaður í Lillehammer, hann þekkti sig augljóslega vel þar.
Enn einn liðsmaður aftökusveitarinnar, Marianne Gladnikoff, heyrði að Bouchiki talaði frönsku. Salameh var ekki mæltur á þá tungu auk þess að vera að minnsta kosti höfðinu hærri en þjónninn Bouchiki. Harari var hins vegar sannfærður um að Bouchiki væri skotmarkið, það var Nehemia Meiri einnig, Mossad-njósnari sem hafði unnið sér það til frægðar að bera kennsl á nasíska fangabúðastjórinn illræmda, Adolf Eichmann, í Argentínu þrettán árum áður.
Slóðin til Lillehammer og Salameh var ekki auðrakin. Mossad hafði öll spjót úti. Að lokum varð það úr að njósnarar þar á bæ fylgdu í humátt á eftir hinum alsírska Kamal Benamane frá Genf í Sviss til Lillehammar. Þóttust þeir þess fullvissir að hann ætti fund með Salameh. Skotmarkið var nánast í sigtinu.
Babb kom hins vegar í bátinn þegar útsendarar Mossad misstu af Benamane í Ósló eftir komu hans til Noregs. Ærbel tókst með snarræði að finna herbergi sem hann hafði gist í yfir nótt í höfuðborginni þar sem lestarmiði til Lillehammer lá á borðinu. Morðsveitin hélt af stað í verkefni sitt.
Vissulega fór Benamane til Lillehammer, en ekki í þeim tilgangi að hitta grunaða hryðjuverkamanninn Salameh. Hann fór þangað til að hitta þjóninn Bouchiki og afhenda honum pakka. Þegar maðurinn frá Alsír afhenti pakkann voru örlög Bouchiki ráðin – hann var Salameh að bestu manna yfirsýn hjá Mossad.
„Hafi maðurinn ekki verið umsvifamikill hryðjuverkamaður var hann umsvifalítill hryðjuverkamaður. Þeir ákváðu að drepa hann samt til öryggis,“ segir ísraelski blaðamaðurinn Ronen Bergmann við NRK, einn helsti sérfræðingur Ísraela í leyniþjónustustarfi þeirra sem ekki starfar sjálfur við leyniþjónustu.
„Síðar kom í ljós – eftir því sem ísraelski leyniþjónustusérfræðingurinn Noam Nachman segir – að í pakkanum hafi verið nokkrar hljómplötur sem Benamane var að gefa Bouchiki,“ segir blaðamaðurinn enn fremur.
Þrautþjálfaðir útsendarar Mossad hurfu sem dögg fyrir sólu af vettvangi eftir víg Bouchiki, fóru af vettvangi á nokkrum bílaleigubílum í allar áttir. Daginn eftir kom Ærbel á bílaleigu í Lillehammer og skilaði einum bílanna. Var hann umsvifalaust handtekinn þar sem vitni höfðu séð og lagt skráningarnúmerið á minnið. Fleiri liðsmenn dauðasveitarinnar voru handteknir, svo sem fyrrnefnd Sylvia Rafael.
„Yfirmenn mínir báðu mig að skila bílnum,“ rifjar Ærbel upp, „bíllinn sem skotið var úr var hins vegar falinn þannig að hann fannst ekki í marga mánuði. Þann bíl notuðu leyniþjónustumennirnir tveir sem skutu Bouchiki. Þeir skildu bílinn eftir í Maihaugen í Lillehammer og komu sér þaðan í bíl sem fannst ekki fyrr en eftir marga mánuði í Kaupmannahöfn.“
Ærbel var einn sex útsendara dauðasveitar Mossad sem voru handteknir eftir tilræðið. Þjarmaði norska rannsóknarlögreglan Kripos svo að Ærbel að hann sprakk á limminu í yfirheyrslum og játaði að ísraelsk stjórnvöld stæðu bak við drápið. Auk þess greindi hann Kripos frá fjölda leynilegra íbúða Mossad um alla Evrópu og í kaupbæti lak hann leynilegri kjarnorkuáætlun Ísraels í þá rannsóknarlögreglumenn. Þar með fréttu Norðmenn af áætluninni þrettán árum áður en allur heimurinn frétti af henni gegnum kjarnavopnasérfræðinginn Mordechai Vanunu sem sagði Sunday Times af henni árið 1986.
Lengi var talið að Ærbel hefði brotnað við yfirheyrslur vegna þess að hann þoldi ekki innilokunina eftir að hafa setið í fangabúðum nasista þrjátíu árum áður. Þetta segir hann alrangt.
„Ástæðan fyrir því að ég talaði í Noregi var að ég var sannfærður um að norska leyniþjónustan vissi af því sem við gerðum í Lillehammer og það eina sem ég þyrfti að gera til að sleppa væri að sannfæra þá um hver ég væri,“ segir gamli leyniþjónustumaðurinn.
Hann segir feril sinn hafa lagst í rúst þegar skuldinni fyrir að drepa rangan mann í Lillehammer var skellt á hann. „Þetta var kerfisvilla, það sem gerðist var að enginn tók ábyrgðina,“ segir Ærbel og bætir því við að boðleiðir æðstu manna Mossad hafi verið bjagaðar, menn hafi verið sannfærðir um að Bouchiki hafi verið Salameh og enginn hafi haft forsendur eða upplýsingar til að leiðrétta þann misskilning.
Mossad skeit alvarlega í nytina sína í Lillehammer í júlí 1973. Ríkisstjórn Ísraels neitaði því árum saman að hafa haft nokkuð með málið að gera en sú málsvörn var að engu gerð þegar stjórnandi drápssveitarinnar, Mike Harari, steig fram árið 2014 og játaði allt. Lýsti hann aðgerðinni sem tvöföldum mistökum, Mossad-sveitin skaut rangan mann og var handtekin að stórum hluta, sex af fimmtán manns.
Ærbel sat aðeins inni í Noregi í tvö ár en tjónið var unnið. Traustið milli leyniþjónusta Noregs og Ísraels var rofið og átti eftir að taka áratugi að gróa þar um heilt. „En ég lærði aldrei norsku,“ segir Ærbel við NRK, „ég get skrifað norsku en ekki talað hana. Enginn talaði við mig í fangelsinu. Á morgnana kom maður og sagði góðan daginn og um kvöldið kom maður og sagði góðan daginn. Og ég svaraði góðan daginn. Það var allt,“ segir Ærbel.
Jalloul, litli bróðir Bouchiki, býr í Frakklandi þar sem NRK kemur að máli við hann. „Ég var nítján ára og var að koma af ströndinni. Lögreglumaður kemur á móti okkur og spyr hvort eitthvert okkar sé Marokkóbúi. Hann sagði okkur að vandamál væri komið upp. Fyrst sáum við bara einhverjar stuttar fréttir í sjónvarpinu og það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar sem við skildum hvað gerst hafði. Foreldrar mínir dóu úr sorg,“ rifjar Jalloul upp.
Enn þann dag í dag, hálfri öld eftir tilræðið í Lillehammer, er spurningum ósvarað. Hvað með Kemal Benamane frá Alsír? Hvers vegna ferðaðist hann frá Genf til Lillehammer, hitti þjón þar í bæ tvisvar og hvarf svo?
„Þetta er enn ráðgáta,“ segir Nachman leyniþjónustusérfræðingur sem hefur skrifað bók um tilræðið í Lillehammer. Telur hann að leita þurfi skýringa hjá Benamane sjálfum en hann er horfinn eins og jörðin hafi gleypt hann.
Ærbel, öryggisvörður og fyrrverandi Mossad-njósnari, kveðst fyrst og fremst syrgja að rangur maður hafi verið drepinn í Lillehammer. Atvikið var síðasti naglinn í líkkistu ferils hans hjá Mossad eftir ótal aðgerðir sem hann tók þátt í.
Á níundu hæð byggingarinnar sem hýsir stórmarkað þann sem Ærbel sinnir daglegum öryggismálum í, svo sem búðahnupli, er sendiráð Noregs í Ísrael þar sem Kåre Reidar Aas sendiherra situr. Ærbel dregur í efa að sendiherrann viti hver það er sem stendur brosmildur í dyrum stórmarkaðarins fyrir neðan, maðurinn sem skuldinni fyrir ein alvarlegustu mistök Mossad á erlendri grundu var skellt á. „Nei, hann veit það líklega ekki. Ég hef aldrei talað við hann. Ég á ekkert erindi við hann sjáðu til,“ segir Dan Ærbel, fyrrverandi Mossad-maður, að lokum við NRK.
NRKII (þegar Mossad hitti lögregluþjóninn)