Dennis Rader, sem gengur undir viðurnefninu BTK-fjöldamorðinginn, segir Rex Heuermann vera klón af sér. Í bréfi til fréttastofu Fox bendir Rader á ýmis líkindi milli hans og Heuermann.
Heuermann var handtekinn í New York í síðustu viku og er hann ákærður fyrir morð á þremur konum. Konurnar hurfu árin 2009 og 2010. Lík þeirra fundust með sams konar umbúnaði á nokkurra daga tímabili síðla árs 2010.
Þá er Heuermann sömuleiðis grunaður um morð á annarri konu sem hvarf árið 2007. Einnig segja rannsakendurnir það til skoðunar hvort Heuermann tengist öðrum óleystum morðmálum í Bandaríkjunum, svo sem í Atlantic City og New Jersey. Hafa dómarar enn fremur gefið út leitarheimildir fyrir staði í Las Vegas og Suður-Karólínu sem talið er að Heuermann hafi tengst.
Rader var dæmdur í ævilangt fangelsi árið 2005 fyrir tíu morð sem hann framdi á árunum 1974 til 1991. Eins og segir var viðurnefni hans BTK, en það stendur fyrir „Bind, torture, kill“ eða „binda, pynta, drepa“.
Í bréfi sínu til Fox bendir Rader á að hann hafi verið 59 ára þegar hann var handtekinn, eins og Heuermann. Þá hafi hann einnig verið kvæntur og átt tvö börn.
Heuermann er giftur Ásu Guðbjörgu Ellerup en hún hefur sótt um skilnað frá honum. Saman eiga þau eina dóttur. Þá á Ása son úr fyrra sambandi. Eiginkona Rader sótti einnig um skilnað frá honum stuttu eftir handtöku hans.
Lögreglan telur fjölskyldu Heuermann ekki hafa vitað um gjörðir hans.
Rader bendir einnig á að hann og Heuermann hafi báðir verið raðmorðingjar í langan tíma án þess að finnast. Þá hafi þeir báðir nota raftæki við morðin og verið eltihrellar.