Rýma grískar eyjar vegna skógarelda

Brottflutningur um 2.500 manna frá grísku eyjunni Korfú yfir á meginlandið hafa staðið yfir frá því í gærkvöldi og fram á morgun, en slökkvilið berst nú við skógarelda sem geisa víða á eyjunni.

Grísk yfirvöld segja enga hættu steðja að byggð á eyjunni að svo stöddu en segja rýminguna varúðarráðstöfun eftir að rýma þurfti tugi þúsunda manna af nágrannaeyjunni Ródos um helgina. Eldarnir tengjast óbærilegri hitabylgju sem herjar á Grikkland og víðar í Suður-Evrópu.

45 gráður um helgina

Óttaslegnir ferðamenn eru meðal þeirra sem flýja eyjurnar sem báðar eru vinsælir ferðamannastaðir, en í fyrra heimsóttu um 2,5 milljónir eyjuna Ródos. Mörg flugfélög hafa stöðvað flug til eyjunnar, en hafa aðstoðað við að rýma hana. Margir ferðamenn og heimamenn þurftu að gista í skólum og íþróttahöllum Ródos yfir helgina vegna eldanna.

Grikkland, líkt og önnur lönd við Miðjarðarhafið, hefur staðið frammi fyrir einni lengstu hitabylgju síðari ára og náði hitinn 45 gráðum um helgina. Búist er við því að hitinn lækki tímabundið niður í 37 gráður í höfuðborginni Aþenu, en muni fljótlega hækka á ný.

Grísk yfirvöld hafa þurft að rýma eyjurnar Ródos og Korfú …
Grísk yfirvöld hafa þurft að rýma eyjurnar Ródos og Korfú að hluta til vegna skógarelda. AFP
Ferðamenn og sumir heimamenn gistu í skólum og íþróttahöllum vegna …
Ferðamenn og sumir heimamenn gistu í skólum og íþróttahöllum vegna eldanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert