Umhverfisverndarsinninn Greta Thunberg hefur verið gert að greiða sekt upp á 2500 sænskar krónur, eða rúmar 32.500 íslenskar krónur, fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu á meðan á mótmælum stóð í Malmö í júní.
Thunberg játaði fyrir dómi að hafa verið á staðnum umræddan dag og óhlýðnast lögreglu en neitaði alfarið að hafa framið glæp. Rúmar þrettán þúsund krónur af þeirri sekt sem að Thunberg skal greiða mun fara í sjóð til styrktar fórnarlömbum glæpa.
Mótmælin sem Thunberg tók þátt í voru á vegum umhverfisverndarsamtakanna „Ta tilbaka framtiden“, sem má útleggja á íslensku sem „endurheimtum framtíðina“. Var ætlun mótmælenda að loka inn- og útgönguleið að höfninni í Malmö og mótmæla þannig notkun jarðefnaeldsneytis.
Sex einstaklingar innan samtakana hafa verið eða eiga yfir höfði sér ákæru vegna mótmælanna.
AFP greinir frá því að þegar Thunberg hafi verið spurð hvort hún myndi vera varkárari í framtíðinni hefði hún sagst ekki ætla að gefa sig.
„Við vitum að við getum ekki bjargað heiminum með því að fara eftir reglum af því að lögunum þarf að breyta,“ er haft eftir henni.
Það kemur því fáum á óvart að nokkrum klukkustundum eftir að sektin var ákveðin hafi Thunberg verið mætt á önnur mótmæli og þegar verið borin af vettvangi í Malmö af lögreglu.