Loftlagsaðgerðasinninn Greta Thunberg viðurkenndi fyrir dómi í dag að hún hafi óhlýðnast lögreglu á mótmælafundi í Malmö í síðasta mánuði en neitar alfarið að hafa brotið lög.
Thunberg var fyrr í mánuðinum ákærð fyrir að óhlýðnast lögreglunni á loftslagsmótmælum í Malmö í júní.
„Það er rétt að ég var á þessum stað á umræddum tíma og að er rétt að ég fékk fyrirmæli sem ég hlýddi ekki. En ég neita því að hafa brotið lög,“ sagði hún fyrir héraðsdómi í Malmö þegar hún var spurð út í sakir sem á hana eru bornar.
Sagði Thunberg að aðgerðir hennar hefðu verið nauðsynlegar vegna hamfarahlýnunar.
Mótmælin sem Thunberg tók þátt í voru á vegum umhverfisverndarsamtakanna „Ta tilbaka framtiden“, sem má útleggja á íslensku sem „endurheimtum framtíðina“. Var ætlun mótmælenda að loka inn- og útgönguleið að höfninni í Malmö og mótmæla þannig notkun jarðefnaeldsneytis.