„Við erum að upplifa martröð“

Þegar kirkjuklukkurnar á grísku eyjunni Ródos byrjuðu að hljóma í morgun, til þess að vara íbúa við skógareldum, var Giorgos Latos að drekka morgunkaffið. „Allt í einu sá ég eld,“ sagði hinn 83 ára gamli Latos í viðtali við AFP-fréttaveituna. 

Um 30 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa eyjuna á síðustu dögum vegna eldanna. Yfirvöld telja að um sé að ræða umfangsmestu rýmingu í sögu Grikklands vegna skógarelda. 

Latos var ber að ofan er hann reyndi að flýja heimilið sitt á bílnum sínum. Eldarnir neyddu hann hins vegar til að snúa við. Latos var að lokum fluttur á öruggan stað af slökkviliðsmönnum og þurfti því að yfirgefa bílinn. 

Flugvöllurinn yfirfullur 

„Við erum að upplifa martröð... Ég er hrædd um hvað verður um þorpið okkar,“ sagði Eleni Diakogianni við AFP en hún býr í sama þorpi og Latos. 

Slökkviliðsmenn bönnuðu henni að reyna aðstoða við að bjarga heimili sínu.

Um 2,5 milljónir ferðamanna heimsóttu Ródos í fyrra. Margir ferðamenn eru nú að reyna að yfirgefa eyjuna og er flugvöllur hennar því yfirfullur af fólki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert