Grafa upp garðinn og skoða eignir í öðrum ríkjum

Rex Heuermann hefur neitað sök.
Rex Heuermann hefur neitað sök. Samsett mynd

Lögreglan í Long Island í New York-ríki í Bandaríkjunum rannsakar nú bakgarð heimilis Rex Heuermann og fjölskyldu. Þá hefur málið teygt anga sína til annarra ríkja og skoða lögregluembætti í Nevada og Suður-Karólínu eignir Heuermann þar.

CNN greinir frá þessu.

Heuermann hefur verið ákærður fyrir morðið á þremur konum og liggur undir grun fyrir eitt til viðbótar. Lík kvennanna fundust við Gilgo-strönd fyrir meira en tíu árum og hefur málið verið óupplýst síðan.

Hann er ákærður fyr­ir morðið á Mel­issu Barthelemy sem hvarf árið 2009 sem og Meg­an Waterman og Amber Costello sem hurfu árið 2010. Þá er hann grunaður um morðið á Maureen Brainard-Barnes sem hvarf 2007. All­ar voru þær á þrítugs­aldri og voru að sögn sak­sókn­ara vestra vænd­is­kon­ur.

Talið er mögulegt að Heuermann hafi myrt konurnar á heimili sínu sem hann deildi með eiginkonu sinni Ásu Guðbjörgu Ellerup og tveimur uppkomnum börnum þeirra. Fram hefur komið að fjölskyldan sé ekki talin hafa vitað af tvöföldu lífi Heuermann og að Ása hafi þegar sótt um skilnað frá eiginmanni sínum.

Leitað er nú í bakgarði heimilis fjölskyldunnar með radar tækni til þess að komast að því hvort eitthvað sé þar að finna.

CNN greinir frá því að lögreglan í Las Vegas athugi nú hvort að Heuermann gæti tengst málum á því svæði en fjölskyldan hafi átt tvær eignir á svæðinu á tímabili. Ekki sé ljóst hvort að þær séu enn í þeirra eigu.

Þá eigi Heuermann land í Suður-Karólínu og að lögreglan hafi óskað eftir leitarheimild á því svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert