„Það er meira en annar hver bíll með brotnar rúður hér á Garda, það er rosalegt að sjá þetta,“ segir Hildur Björk Gunnarsdóttir sem lenti í þeirri lífsreynslu í gærkvöldi á Ítalíu að sitja í bíl ásamt sonum sínum tveimur og tengdadóttur á meðan haglél á stærð við golfbolta dundi á bílnum með þeim afleiðingum að rúður sprungu og glerbrotum rigndi yfir þau.
Þá voru stærstu höglin, sem lentu við hlið bílsins, á stærð við handbolta að hennar sögn.
Fjölskylda Hildar, eiginmaður, þrjú börn og tengdadóttir, hafði verið á ferðalagi í Suður-Frakklandi en ætlað sér að eyða síðustu fimm dögum ferðalagsins á Ítalíu ásamt systrum Hildar og fleiri fjölskyldumeðlimum.
Hildur birti færslu á Facebook-síðu sinni eftir atvikið sem vakið hefur töluverða athygli. Þá segir hún að eiginmaður sinn hafi verið í öðrum bíl ásamt dóttur þeirra en þau hafi sloppið betur þar sem hann hafi náð að koma bílnum undir skyggni á meðan ósköpin dundu yfir.
„Þetta gerist í rauninni þannig að við erum í skemmtigarðinum Gardalandi en fyrr um daginn hafði tækjunum í garðinum verið lokað þar sem það var að byrja þrumuveður en svo gekk það bara yfir. Svo var garðinum lokað klukkan ellefu en það byrjar einhver sýning klukkan tíu og þá byrja þessar svakalegu eldingar. Við höfum aldrei séð annað eins, himininn lýstist upp og eins og ég segi, ég hef aldrei séð svona eldingar.
Svo koma þrumurnar svo við ákveðum bara að drífa okkur þar sem við áttum von á rigningu en svo þegar við setjumst inn í bílinn, á bílastæðinu á Gardalandi, þá koma allt í einu lítil högl sem okkur í raun og veru fannst stór miðað við haglélið á Íslandi.“
Þá segist Hildur ekki gera sér grein fyrir á hve skömmum tíma ástandið versnaði til muna en það hafi eflaust verið á innan við mínútu.
„Þetta gerist svo svakalega hratt. Það koma allt í einu þessir risastóru boltar og það er rosaleg umferð út úr garðinum og allir liggja á flautunni. Jakob, strákurinn minn, er að taka snapp þegar þetta gerist en svo heldur þetta bara áfram og þannig verður þetta myndband til,“ segir Hildur og vitnar þar í myndbandið sem sjá má hér fyrir neðan:
Í framhaldinu tóku þau mæðgin á það ráð að faðmast í framsætinu til að verja sig.
Í aftursætinu sat hins vegar Gunnar, yngri sonur Hildar sem er tíu ára, ásamt Jasmín, tengdadóttur hennar. Þau héldu einnig utan um hvort annað og náðu sem betur fór að skýla sér að mestu með risastórum „banana“ sem maður Hildar hafði unnið í garðinum fyrr um daginn.
„Það er svo fyndið að maðurinn minn vann einhvern risastóran banana sem ég bölvaði alveg ítrekað í fyrstu en ég held að hann hafi svo bjargað því hvað þau fengu lítið af glerbrotum yfir sig þar sem þau einhvern veginn lágu í aftursætinu með þetta fyrirbæri ofan á sér,“ segir Hildur sem sjálf slapp ekki eins vel.
„Þegar afturrúðan sprakk þá flaug hún alveg fram í til okkar en þessir stóru boltar sem lentu á framrúðunni, ég veit í raun ekki hvað þeir voru margir, eflaust fimm eða sex. Ég var í stuttbuxum og þegar glerið mölvaðist allt voru lærin á mér þakin glerbrotum.“
Hildur segir að þau hafi verið dauðskelkuð á meðan á þessu stóð en það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að halda áfram.
„Það lágu bara allir á flautunni en það eina sem ég gat horft út um var smá horn vinstra megin neðst á bílrúðunni. Ég var því bara kengbogin að reyna að keyra rólega en svo var netsambandið ömurlegt og við tókum einhverja vitlausa beygju en sem betur fer er Gardaland bara staðsett rétt hjá staðnum sem við gistum á.“
Þá segist Hildur þakka fyrir að ekki hafi farið verr og þau hafi öll sloppið við alvarleg meiðsli.
„Við vorum á fjórum bílum í heildina en Ragna systir mín var í bíl með tveimur af sínum dætrum en þau hentust í gólfið þegar lætin byrjuðu. Þau voru með glerþak á bílnum og það er svo mikil mildi að það brotnaði ekki. Það brotnaði ein rúða aftur í hjá þeim en minn bíll er langverst farinn. Ég er heldur ekki að grínast þegar ég segi að boltarnir sem lentu við hliðina á okkur voru eins og handbolti á stærð.“
Þegar fjölskyldan komst loksins heil á höldnu heim og allir hittust á nýjan leik skall sjokkið á og segir Hildur að þá fyrst hafi hún brotnað niður.
„Við komumst loks heim um klukkutíma síðar en ætli við höfum ekki setið föst á bílastæðinu við Gardaland í um hálftíma. Ég keyrði bara um með opna rúðu til að reyna að sjá eitthvað til en göturnar voru allar þaktar hagli.“
Fjölskyldan dvelur á svæði við Garda-vatnið sem kallast Campeggio del Garda en þar gistir fólk meðal annars í tjöldum. Hildur og fjölskyldan hennar voru hins vegar í hjólhýsi sem er notað sem sumarhús.
„Húsin eru illa farin þar sem boltarnir fóru í gegn. Fólk sem var í tjaldi hér á svæðinu flúði inn á nærliggjandi veitingastað þar sem það fékk að gista í nótt. Þetta var náttúrlega rosalegt. Systir mín talaði við mann sem er héðan og hann sagðist aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt áður, aldrei,“ segir Hildur og ítrekar að þessi upplifun hafi verið ansi óhugnanleg.
Spurð að því hvort bílaleigan sjái ekki alfarið um tjónið á bílnum þar sem um var að ræða náttúruhamfarir en ekki árekstur segir Hildur það eiga eftir að koma í ljós.
„Við erum með einhverjar bílatryggingar á bílnum og allt svoleiðis og við erum búin að hafa samband við þau. Það er einhver sem kemur hingað en þeir tala bara um að skipta um rúður en mér finnst það eitthvað skrýtið þar sem bíllinn er allur í glerbrotum að innan.
Við tökum bara á þessu seinna, hann er eitthvað tryggður og það er einhver sjálfsábyrgð. Maður nennir eiginlega ekki einu sinni að hugsa um það núna.“
Þá segir Hildur að fjölskyldunni líði vel í dag og allir séu að mestu búnir að jafna sig eftir áfall gærdagsins.
„Við ræddum öll saman í gær og það verður bara gert eitthvað skemmtilegt saman í dag. Við eigum flug heim á fimmtudagskvöldið svo það er gott að eiga auka daga til að pústa.
Það var líka svo ótrúlega flott að á meðan ég var að plokka glerbrotin úr lærinu á mér þá komu tveir hjúkrunarfræðingar hér og röltu um svæðið til að bjóða fólki aðstoð. Ég fékk því góða hjálp við að hreinsa glerbrotin og sótthreinsa sárin,“ segir Hildur að lokum áður en hún heldur út í sólina til að njóta síðustu daga ferðarinnar.