Forseti Níger, Mohamed Bazoum, var í dag tekinn í gíslingu af lífvarðarsveit sinni á heimili sínu í höfuðborginni Niamey. Evrópusambandið og Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) hafa varað við að um sé að ræða tilraun til valdaráns.
Um það bil 20 menn í lífvarðarsveit forsetans lokuðu fyrir aðgang að forsetahöllinni í morgun og halda forsetanum þar í gíslingu. Í færslu sem forsetaembættið sendi frá sér á Twitter, eða X, segir að forsetafjölskyldan sé heil á húfi og að þeir sem taki þátt í valdaránstilrauninni sé gefin úrslitakostur af hernum.
„Forseti lýðveldisins og fjölskyldan hans eru í góðu ástandi. Herinn og þjóðvarnarliðið eru reiðubúin að gera árás á þá meðlimi lífvarðarsveitarinnar sem eru að taka þátt í þessu bræðiskasti, ef þeir hætta ekki,“ segir í Twitter-færslu frá forsetaskrifstofu landsins.
Blaðamaður á staðnum segir við CNN að ástandið í borginni sé eins og í „draugaborg“ og að fáir séu á ferðinni. Bandaríska sendiráðið í Níger hefur beðið fólk um að vera ekki að óþörfu á ferð í borginni.