Tugir slökkviliðsmanna berjast nú við skógarelda um 12 kílómetrum frá borginni Dubrovnik í Króatíu, en eldurinn braust út á mánudaginn.
Ekki hefur enn þurft að rýma byggð í kring en þyrlur sveima yfir svæðinu með slökkviskjólur til þess að reyna að ráða niðurlögum eldanna.
Eldurinn breiddist talsvert út í gær vegna stífs vinds á svæðinu og því voru fleiri slökkviliðsmenn kallaðir út.
Króatískir fjölmiðlar segja gamlar jarðsprengjur hafa sprungið vegna eldanna, en jarðsprengjur leynast enn víða eftir Balkanstríðið á tíunda áratugnum þegar Júgóslavía leystist upp.
Skógareldar geisa nú víða um heim, þar á meðal á Grikklandi og Ítalíu, og er hitastig víða óbærilegt. Fimm manns létust í síðustu viku vegna þrumuveðurs sem herjaði á Bosníu, Króatíu og Slóveníu í kjölfar steikjandi hita á Balkanskaganum.