Yfir 40 látnir vegna gróðurelda við Miðjarðarhaf

Yfir 40 hafa látið lífið í Alsír, Grikklandi og á Ítalíu vegna gróðurelda sem þar geisa. Þúsundir hafa flúið svæðin nálægt eldunum. Björgunarsveitum hefur reynst erfitt að ná tökum á eldunum af sökum þurrks og óhagstæðrar vindáttar. Hvirfilbylir, hvassviðri og haglél hafa einnig látið á sér bera, en hiti nálgast víða 50 gráður. 

Ástandið er einna verst í Alsír, en 34 hafa látið lífið vegna eldanna, þar á meðal 10 hermenn sem unnu að rýmingu á hættusvæði í Bejaia-héraði. Bejaia hefur orðið verst fyrir eldunum, en 23 af þeim 34 sem látist hafa í landinu, létu lífið þar.

Ástandið er einna verst í Alsír, en 34 hafa látið …
Ástandið er einna verst í Alsír, en 34 hafa látið lífið vegna eldanna, þar á meðal 10 hermenn sem unnu að rýmingu á hættusvæði. AFP

Rýma svæði víða

Yfirvöld í Alsír segja að búið sé að slökkva um 80% eldanna síðan á sunnudaginn, en umfangsmikið slökkvistarf heldur áfram. Um 8000 viðbragðsaðilar taka þátt í aðgerðunum og hafa mörg hundruð slökkviliðsbíla og nokkrar flugvélar verið kallaðar út til að sinna slökkvistörfum.

Eldar hafa einnig herjað á nágrannaríkið Túnis, en rýma þurfti strandþorpið Melloula með stuttum fyrirvara í gær. 20.000 manns hafa yfirgefið grísku eyjuna Ródós í flýti vegna gróðurelda, en margir hafa einnig yfirgefið grísku eyjurnar Korfú og Evía. Þúsundir hafa flúið Sikiley og Puglia á Ítalíu.

Gróðureldar hafa nú einnig brotist út á frönsku eyjunni Korsíku.

Bejaia-hérað hefur orðið verst fyrir eldunum, en 23 af þeim …
Bejaia-hérað hefur orðið verst fyrir eldunum, en 23 af þeim 34 sem látist hafa í landinu, létu lífið þar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka