Herforingjar í Níger tilkynntu nú um miðnætti að íslenskum tíma að þeir hefðu rænt völdum í landinu.
Amadou Abdramane, undirofursti í nígerska hernum, sagði í sjónvarpsávarpi að varnar- og öryggissveitir landsins hefðu ákveðið að setja forsetann Mohamed Bazoum af, en fyrr í dag bárust fregnir um að lífverðir hans héldu honum föngnum í embættisbústað sínum.
Níu aðrir herforingjar voru við hlið Abdramane er hann flutti ávarp sitt, og lýstu þeir því yfir að öllum stofnunum landsins yrði lokað sem og landamærum þess, auk þess sem að útgöngubann væri í gildi þar til annað yrði tilkynnt.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í nótt að Bandaríkjastjórn krefðist þess að Bazoum yrði sleppt úr haldi þegar í stað.
Sagðist Blinken hafa rætt við Bazoum í stofufangelsinu og gert honum ljóst að Bandaríkin stæðu með honum sem lýðræðislega kjörnum leiðtoga Níger. Þá sagði Blinken að öll þróunaraðstoð Bandaríkjanna til landsins ylti á því að þar væru lýðræðislegir stjórnarhættir.