Einungis fengið heimsóknir frá lögmanninum

Fjölskylda Rex Heuermann hefur ekki heimsótt hann í fangelsi.
Fjölskylda Rex Heuermann hefur ekki heimsótt hann í fangelsi. Samsett mynd

Rex Heuermann hefur aðeins fengið heimsóknir frá lögmanni sínum á þeim tveimur vikum sem hann hefur verið vistaður í fangaklefa.

Hann er á sjálfsvígsvakt og er því vistaður einn í klefa.

Heuermann hefur verið ákærður fyrir morð á þremur konum sem fundust látnar við Gilgo-strönd á Long Island árið 2010. 

Aragrúi sönnunargagna

Greint var frá því í gær að lögreglan í Suffolk hefði fundið aragrúa sönnunargagna í kjölfar húsleitar á heimili Heuermanns, sem hann deilir með eiginkonu sinni, hinni íslensku Ásu Ellerup og börnum þeirra.

Varði lögreglan tólf dögum í að grandskoða híbýlin og fundust 200 skotvopn heima hjá fjölskyldunni. Þótti lögreglunni því tilefni til þess að rannsaka aftur mál kvennanna fjögurra í Atlantic City, en þær voru á aldursbilinu 19-42 ára. Er talið að þær hafi starfað sem vændiskonur líkt og konurnar fjórar sem fundust við Gilgo-strönd, en þær voru allar á þrítugsaldri.

Ása, eiginkona hans, hefur þegar sótt um skilnað frá Heuermann en hún hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið. Fjölskyldan er ekki talin hafa vitað af tvöföldu lífi Heuermanns, en hár úr Ásu fannst á a.m.k. einu fórnarlambanna. Hún er aftur á móti ekki grunuð um aðkomu að morðunum.

Getur horft á sjónvarp

Í fangelsinu hefur hann ekki aðgang að internetinu, en getur horft á sjónvarp, þar á meðal á fréttir og einnig getur hann óskað eftir dagblöðum.

„Við munum halda áfram að stöðva alla hreyfingu í fangelsinu þegar hann er fyrir utan klefann sinn til að tryggja vernd yfirmanna okkar, hans og allra einstaklinga sem eru fangelsaðir í fangelsi Suffolk-sýslu,“ skrifaði Victoria DiStefano, talsmaður lögreglustjórans í Suffolk-sýslu, í tölvupósti til New York Post.

Upp­fært: Í fyrri út­gáfu þess­ar­ar frétt­ar stóð að Heu­er­mann væri grunaður um morð á ell­efu manns. Sam­kvæmt New York Times hafa ell­efu lík fund­ist á svæðinu við Gil­go-stönd á ár­un­um 2010 til 2011. Heu­er­mann er ákærður fyr­ir morð á þrem­ur kon­um og er grunaður um eitt til viðbót­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka