Gróðureldar í Grikklandi á undanhaldi

Mannskæðir skógareldar, sem nú hafa geisað í Grikklandi í meira en viku eru nú á undanhaldi að sögn slökkviliðsins þar í landi. Engir nýir eldar hafa brotist út.

Viðbúnaðarstig er þó áfram hátt enda búist við hvassviðri sem gæti orðið til þess að eldarnir færist í aukana á ný.

Mörg hundruð slökkviliðsmenn berjast nú við skógarelda á eyjunum Ródos, Korfú og Evíu og í miðhluta Grikklands.

Skæð hitabylgja ríður nú yfir lönd við Miðjarðarhafið. Skógareldar hafa einnig blossað upp í Ítalíu, Króatíu og Portúgal í vikunni. Þá létust 34 manns í Alsír vegna hitans.

Engir nýir eldar í bili

„Engir nýir eldar hafa brotist út í bili, ástandið fer batnandi en við þurfum þó að leggja allt kapp okkar á að slökkva þá skógarelda sem brenna núna,“ sagði talskona gríska slökkviliðsins í samtali við AFP.

Skógareldarnir í Grikklandi hafa geisað í um 10 daga. Telja sérfræðingar þetta vera lengstu hitabylgjuna sem mælst hefur þar í landi í júlí í áratugi.

50.000 hektarar

Fjórir hafa látist í Grikklandi hingað til vegna skógareldanna. Talið er að um 50.000 hektarar af skóg- og gróðurlendi hafi orðið eldinum að bráð. 

Hitinn, sem fór upp í 45 gráður síðustu helgi, er tekinn að lækka.

Gríska veðurstofan spáir því að hiti fari ekki upp fyrir 37 gráður í dag. Búist er við sterkum vindhviðum, allt að 17 metrum á sekúndu. 

Skógareldarnir í Grikklandi hafa geisað yfir í meira en 10 …
Skógareldarnir í Grikklandi hafa geisað yfir í meira en 10 daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert