Franska ríkið hefur varað við því að það muni hefna sín ef ráðist verður á franska borgara í Níger, eftir að mótmælendur reyndu að komast inn í franska sendiráðið í höfuðborginni Niamey í dag.
„Ef einhver ræðst á franskan ríkisborgara, herinn, diplómata eða annað sem heyrir undir Frakkland, þá mun franska ríkið bregðast tafarlaust við með viðeigandi hætti,“ segir í tilkynningu frá skrifstofu Frakklandsforseta.
Þá kemur jafnframt fram að Emmanuel Macron Frakklandsforseti „muni ekki líða árásir gegn Frakklandi eða hagsmunum Frakklands“.
„Frakkland styður öll svæðisbundin frumkvæði“, sem miða að því að „endurreisa stjórnarskrárskipan“, og endurkomu forseta Níger, Mohamed Bazoum, að því er fram kemur í tilkynningunni.