Fjórir nígerskir ráðherrar, einn fyrrverandi ráðherra og formaður stjórnmálaflokks Mohameds Bazoum forseta hafa verið handteknir af herstjórninni í Níger sem rændi völdum í landinu síðastliðinn miðvikudag, þann 26. júlí.
„Eftir að forsetinn var tekinn í gíslingu fóru valdaræningjarnir aftur í sókn og handtóku fleiri,“ segir í yfirlýsingu Nígerska lýðræðis- og sósíalistaflokksins (PNDS) sem barst til AFP-fréttaveitunnar.
Ousseini Hadizatou námugraftarráðherra og Mahame Sani Mahamadou olíumálaráðherra, sem er sonur Mahamadou Issoufou fyrrverandi forseta landsins, voru handteknir í dag, að því er segir í yfirlýsingunni. Segir þar einnig að Fourmakoye Gado, formaður PNDS, hafi verið handtekinn.
Herforingjastjórnin hafi þegar handtekið Hama Amadou Soley innviðaráðherra, Oumarou Malam Alma samgönguráðherra og Kalla Moutarim þingmann og fyrrverandi varnarmálaráðherra.
Í yfirlýsingunni óskar stjórnmálaflokkurinn eftir því að þeir verði látnir ganga lausir og kemur þar einnig fram að hætta stafi á því að verða „einræðis- og alræðisríki“.
Heimildarmaður AFP segir að annar ráðherra, Kassoum Moctar, hafi einnig verið handtekinn.
Þær handtökur ríma við yfirlýsingu herstjórnarinnar þar sem krafist er að „allir fyrrverandi ráðherrar og yfirmenn stofnanna“ skili vinnubílum sínum fyrir hádegi.