Sænska lögreglan hefur veitt mótmælendum leyfi til að brenna Kóraninn við mótmæli utan við sænska þinghúsið í Stokkhólmi í dag. Tjáðu mótmælendur lögreglu að ósk þeirra væri að Kóraninn yrði bannaður í Svíþjóð.
„Hann verður brenndur oftsinnis þar til þið bannið hann,“ segir Salwan Najem, skipuleggjandi mótmælanna, í samtali við sænska dagblaðið Expressen. Najem þessi hefur tekið þátt í tvennum fyrri mótmælum í sænsku höfuðborginni ásamt íraska flóttamanninum Salwan Momika, fóru önnur þeirra fram utan við helstu mosku bæjarins en hin við sendiráð Íraks.
Sænsk stjórnvöld hafa fengið að vinna fyrir kergju stjórnvalda nokkurra ríkja í Mið-Austurlöndum eftir ítrekaðar Kóranbrennur í Svíþjóð undanfarin misseri auk þess sem Tyrkir settu sig harkalega upp á móti aðildarumsókn Svía til Atlantshafsbandalagsins.
Þegar AFP-fréttastofan falaðist eftir því við lögregluna að fá að sjá leyfið var erindinu ekki svarað en lögreglan hefur áður gefið það út að hún veiti aðeins leyfi fyrir mótmælum sem slíkum, ekki einstökum athöfnum sem þar fari fram.
Flóttamaðurinn Momika brenndi blaðsíður úr Kóraninum fyrir utan áðurnefnda mosku í Stokkhólmi við mótmæli í júní en eins og mbl.is hefur greint frá komst sænskur stjórnsýsludómstóll að þeirri niðurstöðu í vor að synjun lögreglu um leyfi til Kóranbrennu gengi í berhögg við sænsk lög. Á þetta féllst millidómsstigið kammarrätten í kjölfar áfrýjunar svo lögmæta bókabrenna þessara tels óyggjandi. Voru dómarnir kveðnir upp eftir að mótmælandi bar synjun lögreglu undir stjórnsýsludómstólinn.
Sænsk stjórnvöld biðluðu í síðustu viku til fimmtán stofnana, þar á meðal hers landsins og nokkurra löggæslustofnana, að herða forvarnir og eftirlit með hryðjuverkastarfsemi í Svíþjóð. Dönsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hygðust kanna lagalegt umhverfi sitt er að því snýr að banna mótmæli sem fela í sér brennu helgra trúarbragðatexta og báru við ógn við öryggi dansks almennings í kjölfar viðburða þar sem Kóraninn hefur verið svívirtur með einhverjum hætti.
Hefur sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson gefið út þá yfirlýsingu að ámóta ferli sé þegar hafið í Svíþjóð.