Þýsk stjórnvöld hafa stöðvað alla fjárhagsaðstoð til Níger vegna valdaránsins sem var framið í landinu í síðustu viku. Rússnesk stjórnvöld biðla til „allra hliða“ í átökunum í Níger um að sýna taumhald.
Þau vara þýsk stjórnvöld einnig við því að það geti gripið til hertari aðgerða gegn landinu.
Talsmaður þýska utanríkisráðuneytisins sagði á blaðamannafundi í dag að Þýskaland hafi „stöðvað allar beinar greiðslur til nígersku ríkisstjórnarinnar þar til annað væri tilkynnt“ . Einnig var tilkynnt að þýsk stjórnvöld hafi stöðvað alla samvinnu með Níger, sem er eitt fátækasta land heims.
Greint var frá því á mbl.is í síðustu viku að Amadou Abdramane, undirofursti í nígerska hernum, hefði sagt í sjónvarpsávarpi aðfaranótt fimmtudags að varnar- og öryggissveitir landsins hefðu ákveðið að setja Mohamed Bazoum forseta af.
Abdourahamane Omar Tchiani, hershöfðingi og yfirmaður lífvarðasveita forsetans, ávarpaði síðan nígerísku þjóðina á föstudag og lýsti sig sem nýjan leiðtoga landsins. Bazoum forseta hefur verið haldið í gíslingu í embættisbústað sínum síðan á miðvikudag.
Tchiani segir að valdaránstilraunin sé viðbragð við „versnandi öryggisástandi“ landsins í sambandi við blóðsúthellingar Jihadista á Sahelösvæðinu, auk spillingar og slæms efnahagsástands í landinu. Um er að ræða þriðja valdaránið á Sahel-svæðinu á þremur árum.
„Við köllum eftir því að réttarríkið verði aftur komið á fót í landinu fljótlega og aðhaldi frá öllum hliðum svo að þetta leiði ekki til mannfalls,“ segir Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta.
Leiðtogar Vestur-Afríkuríkja hafa gefið herforingjastjórninni í Níger vikufrest til þess að láta af hendi völd í landinu.
„Það sem er að gerast [í Níger] er gríðarstórt áhyggjuefni,“ sagði Peskov.
Herforingjastjórnin hefur ásakað Frakkland, fyrrverandi nýlenduherra Nígermanna, um að vilja beinar „hernaðaríhlutun í landinu“ í kjölfar valdaránsins.