Carlos De Oliveira, umsjónarmaður heimilis Donalds Trumps í Flórída, mun mæta fyrir dómstól í dag en hann er sakaður um að hafa aðstoðað við að geyma háleynileg skjöl varnarmálaráðuneytisins á heimili fyrrverandi forsetans í Flórída.
Trump hefur ítrekað neitað sök.
Áætlað er að réttarhöldin yfir Trump fari fram í maí á næsta ári er forsetakosningar í Bandaríkjunum eiga sér stað. Trump er nú fremstur í forvali Repúblikanaflokksins.
Jack Smith, sem skipaður var sérstakur saksóknari í málinu, lagði fram viðbótarákæru á hendur Trump í síðustu viku og bætti De Oliveira við sem sakborningi.
Nýju ákærurnar tengjast meintum tilraunum Trumps til að hindra rannsókn FBI og tilraunum hans til að endurheimta leynileg skjöl sem hann tók með sér þegar hann yfirgaf Hvíta húsið.
Þá er hann sérstaklega sakaður um að hafa reynt að „eyða upptökum úr öryggismyndavélum“ við klúbbinn Mar-a-Lago til að koma í veg fyrir að þær yrðu afhentar FBI og alríkisdómnefnd.
Ásamt De Oliveira er Waltine „Walt“ Nauta, annar persónulegur aðstoðarmaður Trump, einnig ákærður.
Trump, Nauta og De Oliveira eru allir sakaðir um að hafa reynt að láta annan starfsmann Trumps, sem er ónafngreindur í ákærunni, eyða upptökum úr öryggismyndavélum á Mar-A-Lago setrinu.
Einnig er De Oliveira ákærður fyrir að hafa gefið FBI rangar upplýsingar, en hann neitar að hafa fært til kassa á heimili Trumps. „Sá aldrei neitt,“ sagði De Oliveira.