Wagner-liðar einblína á Afríku og Hvíta-Rússland

Jev­gení Prigó­sjín, leiðtogi Wagner-málaliðahóps­ins.
Jev­gení Prigó­sjín, leiðtogi Wagner-málaliðahóps­ins. AFP/Telegram

Jev­gení Prigó­sjín, leiðtogi Wagner-málaliðahóps­ins, greindi frá því í dag að hópurinn muni starfa áfram í Hvíta-Rússlandi og Afríku, en að Wagner sé ekki að taka við nýjum liðsmönnum að svo stöddu. 

BBC greinir frá.

Í hljóðskilaboðum sem Prigó­sjín birti á Telegram sagði hann að hópurinn væri að ákveða sín næstu skref. 

Wagner-liðar gegndu lykilhlutverki í átökunum í Úkraínu áður en Prigó­sjín stóð að mis­heppnaðri upp­reisn gegn rúss­nesk­um stjórn­völd­um í lok júní. 

Þann 24. júní stóð Prigó­sjín að mis­heppnaðri upp­reisn gegn rúss­nesk­um …
Þann 24. júní stóð Prigó­sjín að mis­heppnaðri upp­reisn gegn rúss­nesk­um stjórn­völd­um. AFP/Roman Romokhov

Í hljóðskilaboðunum greindi Prigó­sjín frá því að flestir Wagner-liðar væru í fríi eftir „langt tímabil þar sem þeir unnu erfiðisvinnu“. 

Þá sagði hann að Wagner væri að ákveða næstu skref sem yrðu „unnin í þágu Rússlands“.

Bíða eftir kalli frá föðurlandinu

Prigó­sjín sagði að hópurinn myndi nú starfa í Afríku og á æfingastöðvum í Hvíta-Rússlandi. 

BBC greinir frá því að vitað sé að Wagner starfi í Sýrlandi, Súdan, Líbíu, Mósambík, Malí og Mið-Afríkulýðveldinu.

Prigó­sjín sagði í skilaboðunum að hópurinn tæki ekki við nýjum liðsmönnum að sinni en um leið og „föðurlandið þyrfti á nýrri hersveit að halda til að berjast fyrir sig, þá muni Wagner svo sannarlega taka við nýjum liðsmönnum“.

Þá sagði hann að það stæði ekkert í veg fyrir að Wagner-liðar færi sig um set og gangist til liðs við aðrar hersveitir „sem sumir hafi, því miður, nú þegar gert“.

Eftir uppreisnina bauð Vladimír Pútín Rússlandsforseti Wagner-liðum sem tóku ekki þátt í uppreisninni að ganga til liðs við rússneska herinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert