Bandarísk stjórnvöld hyggjast ekki koma ríkisborgurum sínum úr Níger vegna valdaránsins í landinu. Ítölsk stjórnvöld hafa aftur á móti skipulagt sérstakt flug til að koma sínum ríkisborgurum úr landi.
Greint var frá því á mbl.is í síðustu viku að Amadou Abdramane, undirofursti í nígerska hernum, hefði sagt í sjónvarpsávarpi aðfaranótt fimmtudags að varnar- og öryggissveitir landsins hefðu ákveðið að setja Mohamed Bazoum forseta af.
Hann er enn í gíslingu í embættisbústað sínum. Abdourahamane Omar Tchiani, hershöfðingi og yfirmaður lífvarðarsveita forsetans, hefur lýst sig sem nýjan leiðtoga landsins.
Frönsk stjórnvöld undirbúa aðgerðir til þess að koma frönskum borgurum úr Níger og bjóða jafnvel öðrum Evrópubúum í Níger laus flugsæti. Utanríkisráðuneyti Þýskalands hvetur einnig þýska ríkisborgara í Níger til þess að yfirgefa landið með flugvélum Frakka.
Um 1.000 bandarískir hermenn eru í Níger. Voru þeir þar til þess að berjast gegn uppreisnarmönnum íslamista í landinu áður en valdaránið var framið. Frakkar eiga einnig fjölda hermanna í Níger en ekki stendur til að fljúga með þá heim.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, sagði á blaðamannafundi að bandarísk stjórnvöld væru „vissulega meðvituð um aðgerðir Frakklands og annarra Evrópuríkja til þess að koma borgurum sínum úr landi. Jafnframt sýnist okkur ekkert gefa til kynna að einhver bein ógn stafi gegn bandarískum ríkisborgurum, svo við höfum ekki breytt um afstöðu til viðveru okkar í Níger“.
Hann heldur því fram að bandarísk stjórnvöld sjái enn fram á að geta átt í samningsviðræðum við herforingjastjórnina í Níger til þess að leysa úr ástandinu í landinu.
„Við höldum áfram að hvetja bandaríska ríkisborgara í Níger til þess að passa upp á það að öryggi sé þeirra fyrsta forgangsatriði,“ segir hann. Bætir hann við að bandarísku hermennirnir í Níger komi ekki til með að hjálpa til við brottflutning evrópskra borgara úr landinu.
„Ítölsk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða samlöndum okkar í Niamey möguleika á að yfirgefa borgina með sérstöku flugi til Ítalíu,“ skrifar Antonio Tajani utanríkisráðherra á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).
Segir hann að ítalska sendiráðið í Niamey, höfuðborg Níger, verði enn „opið og starfandi, einkum til að aðstoða við þau málamiðlunarverkefni sem eru í vændum“.
Ráðuneytið segir við AFP-fréttaveituna að ekki sé um að ræða flótta úr landi heldur „sérstakt flug fyrir þá sem vilja yfirgefa landið“. Alls eru 90 Ítalir í Niamey, en 500 í landinu öllu, mestmegnis hermenn.
Ekki er vitað um að nokkur Íslendingur sé í Níger samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Íslands og þjóðskrá.