Dóttir raðmorðingjans Keith Hunter Jesperson, Mellissa Moore, hefur sett af stað söfnun til að safna fyrir skilnaði Ásu Guðbjörgu Ellerup við eiginmann sinn Rex Heuremans sem er grunaður um morð á fjórum konum.
Moore hóf söfnunina fyrir þremur dögum síðan á vefsíðunni gofundme og hafa nú þegar 162 manns styrkt Ásu til skilnaðar. Samtals hafa 4.912 bandaríkjadalir safnast, en það nemur um 650 þúsund íslenskum krónum. Meðal styrktaraðila er að minnsta kosti einn Íslendingur.
Moore segir í söfnuninni að hún hafi ekki viljað hefja söfnunina áður en að hún fékk samþykki frá Ásu. Ása lýsti því yfir á veröndinni fyrir framan heimilið sitt fyrir þremur dögum síðan að söfnun gæti komið sér vel.
Moore segist vilja hjálpa Ásu þar sem hún þekkir það sem hún er að ganga í gegnum núna. Moore er dóttir kanadísks-bandarísks raðmorðingja sem var þekktur sem „broskalla morðinginn“ (Happy Face killer) sem var handtekinn árið 1995. Jesperson var sakfelldur fyrir að hafa orðið átta konum að bana í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum.
„Móðir mín og fjölskylda voru og eru fórnarlömb. Við vissum ekki af tvöföldu lífi hans. Í dag hef ég tækifæri til að nota rödd mína til að hjálpa Ásu, sem getur ekki tjáð sig um hryllinginn sem hún og fjölskylda hennar eru að ganga í gegnum núna,“ segir í söfnuninni.
Uppfært: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar stóð að Heuermann væri grunaður um morð á ellefu manns. Samkvæmt New York Times hafa ellefu lík fundist á svæðinu við Gilgo-stönd á árunum 2010 til 2011. Heuermann er ákærður fyrir morð á þremur konum og er grunaður um eitt til viðbótar.