Frönsk stjórnvöld undirbúa aðgerðir til þess að koma frönskum borgurum úr Níger í kjölfar valdaráns í landinu. Frakkar eru fyrrverandi nýlenduherrar Nígermanna og stjórnvöld hafa lýst yfir áhyggjum af öryggi franskra ríkisborgara í landinu.
Franska utanríkisráðuneytið sagði að ákvörðunin hafi verið tekin vegna tilraunar til innbrots í franska sendiráðið í Níger og vegna þess að búið er að loka fyrir flugumferð í landinu.
Franska ríkið hefur varað við því að það muni hefna sín ef ráðist verður á franska borgara í Níger.
Það eru að minnsta kosti 600 franskir ríkisborgarar staddir í Níger. Ráðuneytið býðst einnig til þess að hjálpa öðrum evrópskum ríkisborgurum við að flýja landið.
Ekki er vitað um neina Íslendinga í Níger samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Íslands og þjóðskrá.
Franska ríkisstjórnin fundaði í morgun til þess að ákveða hvernig eigi að flytja Frakka úr Níger. Heimildarmaður AFP-fréttaveitunnar segir að stjórnvöld hyggist nota flugvélar franska hersins til þess að koma ríkisborgurum úr landi.