Gráta sig í svefn

Lögreglan meðal annars gróf upp garð fjölskyldunnar.
Lögreglan meðal annars gróf upp garð fjölskyldunnar. AFP/Yuki Iwamura

Ása Guðbjörg Ellerup, eiginkona Rex Heuermann sem ákærður er fyrir morð á þrem­ur kon­um, hefur tjáð sig í fyrsta sinn síðan eiginmaður hennar var handtekinn þann 13. júlí.

Í samtali við New York Post segir Ása uppkomin börn sín tvö, 26 og 33 ára, gráta sig í svefn, eftir atburði síðustu vikna. Þá sé hús fjölskyldunnar í Massapequa Park á Long Island í rúst eftir að leit lögreglu lauk.

Dóttir Ásu, Victoria Heuermann, lýsir meðferðinni sem fjölskyldan hafi þurft að þola sem ómanneskjulegri.

Hafi ekki lengur rúm til að sofa í

Þá kemur fram að lögreglan hafi eyðilagt húsgögn og verðmæta muni í leit sinni. Kattakössum hafi verið hent á víð og dreif, gítar brotinn og sófi tættur. Þá hafi hún ekki rúm til að sofa í lengur.

„Við náðum í annan stól úr kjallaranum svo ég og sonur minn gætum setið og talað saman. Hann er svo eyðilagður og skilur ekki, og sem móðir, þá hef ég engin svör fyrir hann,“ er haft eftir Ásu. Greint er frá því að sonur hennar sé með þroskakerðingu og reynist aðstæðurnar honum erfiðar.

Heuermann hef­ur verið ákærður fyr­ir morð á þrem­ur kon­um sem fund­ust látn­ar við Gilgo-strönd á Long Island árið 2010. Hann er einnig grunaður um eitt til viðbótar.

Greint hefur verið frá því að Ása hafi sótt um skilnað frá Heuermann í kjölfar handtökunnar. Þá hafi Heuermann aðeins fengið heimsóknir frá lögmanni sínum.

Upp­fært: Í fyrri út­gáfu þess­ar­ar frétt­ar stóð að Heu­er­mann væri grunaður um morð á ell­efu manns. Sam­kvæmt New York Times hafa ell­efu lík fund­ist á svæðinu við Gil­go-stönd á ár­un­um 2010 til 2011. Heu­er­mann er ákærður fyr­ir morð á þrem­ur kon­um og er grunaður um eitt til viðbót­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert