Æfur yfir þriðju ákærunni

Trump kennir spilltri ríkisstjórn og falsfréttum um nánast öll ljón …
Trump kennir spilltri ríkisstjórn og falsfréttum um nánast öll ljón í veginum og þeim fækkar ekki hjá forsetanum fyrrverandi. AFP/Sergio Flores

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og hugsanlegur frambjóðandi í næstu forsetakosningum, sé að marka hans eigin orð, er æfur yfir þriðju ákærunni er hann sætir nú, sú ber honum á brýn að hafa gert tilraun til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna árið 2020 og er sú alvarlegasta hingað til, sett fram á 45 blaðsíðum.

Kennir Trump ríkisstjórninni um allt saman, hún sé gerspillt og stöðugar lögfræðilegar árásir á hann hafi ekki gert annað en að steypa Bandaríkjunum í glötun.

Ritar Trump á samfélagsmiðilinn Truth að nýjasta ákæran sé góð átylla fyrir stuðningsmenn hans að fylkja sér um hann og veita honum atkvæði sín í næstu kosningum. „Ég hef aldrei notið annars eins stuðnings á neinum vettvangi,“ ritar hann í færslu sem öll er skrifuð með hástöfum – enda forsetinn fyrrverandi ekki þekktur fyrir annað en að tala hástöfum.

Nýtur umtalsverðs fylgis

„Ameríka er land í hnignun en við munum gera hana stórkostlega á ný, stórkostlegri en nokkru sinni,“ ritar Trump.

Fyrri ákærur á hendur Trump snúa að misferli með trúnaðarskjöl Hvíta hússins og mútugreiðslum til klámstjörnu árið 2016 fyrir að ljóstra ekki upp um samskipti þeirra þáverandi forsetaframbjóðandans.

Hvað sem öllu þessu líður nýtur Trump umtalsverðs fylgis innan Repúblikanaflokksins sem frambjóðandi í næstu forsetakosningum og breikkar gjáin ört milli hans og helsta keppinautarins, Ron DeSantis, ríkisstjóra í Flórída.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert